Í samræmi við íslenska menntastefnu

Þetta er athyglisverður samanburður og gefur tilefni til að rýna svolítið ofan í skólakerfið okkar. Þarna kemur líka skýrt fram að laun kennara á Íslandi eru með því lægsta sem þekkist í OECD löndunum. Það hlýtur að vera verulegt áhyggjuefni en tækifæri til að lagfæra það gefst í samningunum sem standa yfir akkúrat núna.

 

Mönnun skólanna helst í hendur íslenska menntastefnu. Íslenski grunnskólinn stendur grunnskólum í flestum öðrum löndum framar og býður öll börn velkomin inn í skólastofurnar. Aðgreining hér á landi er minni en í flestum öðrum löndum. Sérdeildir og sérskólar hafa verið lagðir niður og dyr kennslustofanna opnaðar fyrir öllum börnum. Við erum með um 1% allra nemenda í sérskólum og sérdeildum á meðan t.d. Finnar eru með yfir 7%. Þetta kallar í fyrsta lagi á það að bekkir hér geta ekki verið fjölmennir og í öðru lagi þarf fleira fólk. Sum börn, sem í öðrum löndum væru í sérdeild eða sérskóla, þurfa sérstaka aðstoð inn í almennum bekk. Menntastefna okkar krefst meiri mannafla en stefna aðgreiningar en hún er mannúðlegri og skilar sterkari einstaklingum út úr skólunum.

 

Undanfarna daga hef ég haft gesti í mínum skóla frá Ástralíu og Þýskalandi sem hafa sérstaklega verið að kynna sér hvernig við sinnum börnum með t.d. einhverfu, ofvirkni og athyglisbrest. Þeir eiga ekki orð til að lýsa ánægju sinni með hvernig við vinnum að þessum málum hér á Íslandi og um leið lýsa þeir yfir stakri óánægju með hvernig tekið er á þeim í þeirra heimalöndum.

 

Við getum verið stolt af okkar skólum.


mbl.is Dýrt skólakerfi en launin lág
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rétt. Já, og til hamingju með úrskurð ráðuneytis sveitarmála. Þetta er fyrsti úrskurður Möller eftir flutning.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 14:05

2 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Það er alltaf nauðsynlegt að rýna ofan í skólakerfið en við gerum það of sjaldan.  Kannski að það lagist núna þegar allir rjúka af stað og ná sér í meistaragráðu en það verður þá að vera til góðs.  En þetta með sérskólana Hafsteinn, að við séum með 1% allra nemenda í sérskólum meðan Finnar eru með 7% þá hef ég nú heyrt í mörgum kennurum sem vildu skipta.

En gott að heyra í þér aftur alltaf gaman að lesa pistlana þína.

kv

Rósa 

Rósa Harðardóttir, 23.3.2008 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband