Umhverfismat á Glaðheimasvæðinu - jákvætt þrátt fyrir miklu meiri mengun

Í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir á Glaðheimasvæði var unnið umhverfismat, en lög kveða á um að slíkt sé gert. Bæjarskipulagið stóð að umhverfismatinu ásamt fleiri aðilum. Matið er ugglaust faglega unnið og samkvæmt þeim kröfum og leiðbeiningum sem koma fram í lögum. En fyrir leikmenn og óbreytta borgara er ýmislegt sem stingur í augu og vekur athygli. Rétt er að geta þess að umhverfismat þetta tekur eingöngu til bygginga á Glaðheimasvæðinu til viðbótar við það sem nú er, en ekki þeirra hugmynda sem eru í vinnslu um byggingar sunnan við Smáralind og við Dalveg, né heldur til þess ef annar turn rís á Smáratorgi í stað hússins sem hýsir nú Bónus og Rúmfatalagerinn.  

Í skýrslu um umhverfismat eru áhrif á umhverfið metið út frá tveimur kostum, þ.e. ef byggt er á Glaðheimasvæðinu skv. þeirri tillögu sem liggur fyrir og ef ekkert er byggt. Metið er út frá fimm umhverfisþáttum – andrúmslofti, borgarlandslagi, félagslegu umhverfi, efnahag og atvinnulífi og eignum.

 Andrúmsloft

Áhrif á andrúmsloft eru klárlega neikvæð en athygli vekur að í skýrslunni er áhrifin á andrúmsloftið einnig neikvæð ef ekkert er byggt. Reyndar er þess getið að þau verði meiri en ella ef byggt er í Glaðheimum. Ekki er bent á neinar mótvægisaðgerðir gegn mengun aðrar en þær að koma upp hreyfanlegri mælistöð sem mælir loftgæði. Svo er sagt: “Með því að fylgjast með loftgæðum er stuðlað að því að mengun verði haldið í lágmarki...” Mæling ein og sér getur ekki stuðlað að minni mengun og hvað ætla menn að gera? Staðreyndin er einfaldlega sú að mótvægisaðgerðir gegn mengun vegna útblásturs frá bílum og svifryks eru harla erfiðar og illframkvæmanlegar. 

 Borgarlandslag

Í skýrslunni er sagt að byggðin verði að nokkru leyti háreist og nú þegar sé byrjað að reisa háhýsi í Smáranum og að stefnt sé að því að halda því áfram. Einnig segir að gera megi ráð fyrir að Smárinn muni skapa sér sérkenni á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum fyrir þessar sakir. Bent er á að bygging háreistra bygginga sé umdeild og síðan kemur þessi gullvæga fullyrðing: “Áhrifin eru jákvæð þegar horft er til heildarmyndarinnar og yfirbragðs svæðisins en neikvæð í augum þeirra sem ekki kunna við háreista byggð.” Í ljósi þessa eru áhrif á borgarlandslagið talin bæði jákvæð og neikvæð. Ef ekkert er gert á svæðinu eru áhrifin einnig metin bæði jákvæð og neikvæð, því að núverandi hesthúsabyggð fellur “illa að heildaryfirbragði svæðisins en er jákvæð í augum þeirra sem ekki kunna við háreista byggð.” Ergo – þeir sem ekki vilja háhýsi þarna vilja hafa hesthúsin. Tja, skyldu nú allir vera sammála þessu?

 Félagslegt umhverfi

Í umfjöllun um félagslegt umhverfi eru tveir þættir nefndir þ.e. skólamál og hljóðvist. Þar sem gert er ráð fyrir 350 íbúðum á svæðinu búast menn við að þar verði um 130 börn á grunnskólaaldri. Þeim á að skipta á tvo skóla, Lindaskóla og Smáraskóla. Á leið sinni í Smáraskóla fara börnin fyrst yfir 12 akreina Reykjanesbraut og svo yfir 4-6 akreina Fífuhvammsveg. Mótvægisaðgerðir gegn barnafjölda í hverfinu eru fyrst og fremst að selja hluta þeirra til 60 ára og eldri eða hafa þær það litlar að fólk með börn flytji ekki í þær.  Í skýrslunni er sagt að gera megi ráð fyrir að hljóðstig aukist meðfram helstu umferðaræðum. Ekki er kveðið á um mótvægisaðgerðir heldur sagt að þörf á þeim skuli metin síðar.

 Efnahagur og atvinnulíf

Þessi umhverfisþáttur kemur mörgum leikmönnum á óvart enda almennt ekki talinn hefðbundinn umhverfisþáttur. Hann hefur hins vegar blússandi jákvæð áhrif í umhverfismatinu enda gert ráð fyrir mikilli atvinnustarfsemi. Mörgum kann að þykja þetta stangast á við hefðbundinn skilning á umhverfismálum. Þegar almenningur hugsar um umhverfismál koma ekki fyrst upp í hugann efnahagur og atvinnulíf. Hins vegar leiðir uppbygging efnahags og atvinnulífs oft til árekstra við umhverfið sem menn reyna að meta í umhverfismati og finna leiðir til að draga úr áhrifum þess á umhverfið. Hér er þessi liður einn af umhverfisþáttunum og hann hefur afar jákvæð áhrif í umhverfismatinu.

 Eignir

Það kann að koma mörgum leikmanninum spánskt fyrir sjónir að nærliggjandi húsnæði er einn af umhverfisþáttunum. Uppbygging á Glaðheimasvæðinu er talin hafa jákvæð áhrif á verðmæti eigna og því er þessi þáttur afar jákvæður.

 Miklu meiri mengun og hávaði en...

Þegar á heildina er litið eru áhrif þess að reisa mikla og háreista byggð á Glaðheimasvæðinu afar jákvæð skv. umhverfismatinu. Hefðbundnir umhverfisþættir eins og mengun og hávaði koma að vísu afar illa út og sjónræn áhrif eru smekksatriði. En þeir þættir sem lyfta matinu hvað mest í jákvæðni geta varla talist umhverfismál í hefðbundnum skilningi. Niðurstaða matsins er því miklu meiri mengun og hávaði en af því að verðmat nærliggjandi húsa eykst og efnahagur og atvinnulíf verður blómlegra en er nú í hesthúsahverfinu þá er afar jákvætt út frá umhverfissjónarmiðum að fyrirhuguð byggð rísi í Glaðheimum!

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband