Málfarslegir yfirburðir - skipta þeir máli?
11.1.2007 | 17:18
Við notum tungumálið til þess að tjá okkur, láta í ljós skoðanir okkar, tilfinningar, vilja, óskir og þrár. Það skiptir máli að geta gert sig skiljanlegan, það er manni nauðsynlegt í öllum venjulegum samskiptum.
En lengi hefur verið ljóst að þeir sem hafa sterk tök á tungumálinu standa betur að vígi en hinir. Þeir sem hafa mikinn orðaforða og tala litríkt mál draga að sér athyglina. Þeir ná eyrum fólk, orð þeirra hljóma vel og fólk fer að hlusta. Mælskusnillingar geta náð langt hafi þeir frá einhverju að segja. En ef orðaflaumurinn ber innihaldið ofurliði er sá er mælir froðusnakkur. Sumsstaðar er það dyggð að þegja nema menn hafi frá einhverju mikilvægu að segja. Ég hef það t.d. fyrir satt að í einni sveit hér í Finnlandi sé til fólk sem ekki hefur talað árum saman. Því hefur einfaldlega ekki þótt nokkur ástæða til þess.
Skólinn byggir á tungumálinu og þar er unnið með það á ýmsan hátt. Nemendur læra snemma að lesa og skrifa og svo snýst allt skólastarfið um það að lesa og skrifa. Því miður hefur áherslan oft verið of mikil á að lesa eitthvað sem aðrir hafa skrifað og skrifa upp texta eftir forskrift. Hinn skapandi þáttur tungumálsins gleymist gjarnan, þ.e. að leyfa nemendum að tjá sig í töluðu máli og semja eiginn texta.
Sá sem semur eiginn texta lærir að þekkja sjálfan sig, hann áttar sig á skoðunum sínum og áttar sig á því hvert þekking hans nær. Hann leitar með skipulegri hætti eftir nýrri þekkingu. Þekkingin eykst og sjálfsmyndin styrkist og einstaklingurinn hikar ekki við að láta skoðanir sínar í ljósi. Með því að vinna með málið á þennan hátt eykst málvitundin, málfræðin verður auðskiljanlegri og stafsetning verður ekki vandamál.
Á blogginu eru menn að tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Það er gaman að lesa hugleiðingar manna. Vissulega mismunandi gaman. Sumir eru betri stílistar en aðrir og höfða einhvern veginn meira til manns.
Mér þykir að vissu leyti vænt um að sjá bæði stafsetningar- og málfræðivillur á bloggsíðunum. Það segir mér að menn þora að tjá sig á málinu sínu þó svo að þeir hafi ekki náð fullum tökum á kórréttri samræmdri stafsetningu eða málfræði. Ég hef oft hitt mikla hugsuði með fínar hugmyndir sem þora ekki að segja frá þeim af því að þeir eru hræddir um að tala vitlaust eða skrifa vitlaust. Sjálfsmynd þeirra hefur einhversstaðar beðið hnekki.
Á tímum eins og okkar þar sem skiptir miklu að geta komið fyrir sig orði bæði í ræðu og riti verður skólinn að fylgja með og auka áherslu á hinn skapandi þátt tungumálsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.