Sátt milli bæjaryfirvalda og hestamanna í Kópavogi

Frá því að braskarar fóru að kaupa upp hesthús á félagssvæði Gusts í gróðaskyni haustið 2005 hefur blásið um hestamenn í Kópavogi. Veturinn sem fylgdi í kjölfarið hlýtur að vera félagsmönnum Gusts eftirminnilegur. Þeir reyndu að standa vörð um félagið sitt meðan hart var að þeim sótt og þeim boðnar fúlgur fjár, ef þeir seldu hesthúsin. Sumir seldu en margir sátu fastir á sínu og létu ekki glepjast af gylliboðunum. Uppkaupsmennirnir komust í þrot á miðjum vetri þegar þeir höfðu ekki aðgang að meira fé. Þeir voru nokkuð fjarri markmiði sínu, að ná undir sig öllum hesthúsunum. En þá barst þeim hjálp úr óvæntri átt. Meirihluti bæjarstjórnar, undir forystu þáverandi bæjarstjóra, losaði þá úr snörunni og keypti af þeim hesthúsin sem þeir voru búnir að kaupa. Uppkaupsmennirnir fengu með þessum hætti nokkur hundruð milljónir úr bæjarsjóði í sinn vasa í hagnað. Svo buðu bæjaryfirvöld hestamönnum sem ekki höfðu selt húsin sín verð langt yfir markaðsvirði fyrir húsin. Sömdu jafnframt við þá um að byggja upp nýtt hesthúsahverfi á Kjóavöllum.

Leiðin sem var farin var peningamiðuð. Allir áttu að græða svo mikið. Hestamenn áttu að græða mikið á því að selja hesthúsin sín og bærinn átti að græða mikið á því að fá Glaðheimasvæðið undir viðskipta- og fjármálahverfi á heimsvísu. En græddi einhver á þessu? Jú vissulega græddu braskararnir eins og áður er getið og hestamennirnir fengu fullt af peningum fyrir húsin sín. Þeir þurftu að geyma þá þar til hægt væri að byggja nýtt hesthús á Kjóavöllum. Þegar ljóst var að það myndi dragast keyptu sumir sér hús í Hafnarfirði eða Reykjavík og yfirgáfu þar með hestamannafélagið sitt. Aðrir biðu með peningana sína inn á bankareikningum þar sem þeir þurrkuðust að mestu út þann 6. október árið 2008. Kópavogsbær hefur ekki hagnast á þessum viðskiptum. Peningar sem áttu að streyma í bæjarsjóð vegna þessa „snjalla“ gjörnings hafa ekki skilað sér. Þvert á móti hefur þetta kostað bæjarsjóð og skattgreiðendur verulega fjármuni.  Vonandi skilar þessi fjárfesting sér þó í framtíðinni.

Ég ásamt félögum mínum í minnihlutanum í bæjarstjórn tók harða afstöðu gegn þessu öllu saman. Við lögðum til að smátt og smátt yrði hesthúsahverfið flutt að Kjóavöllum með því að eigendur fengju nýtt hús þar gegn gamla húsinu í Glaðheimum. Við fengum bágt fyrir þá, en ég hygg að margur vildi nú að sú leið hefði verið farin. 

Uppbygging á Kjóavöllum hefur gengið miklu hægar en fyrirhugað var og efnahagshrunið setur þar mikið strik í reikninginn. Enn eru hesthúsin í Glaðheimum í notkun og verða líklega enn um sinn. Samningar sem gerðir voru á sínum tíma um uppbygginguna á Kjóavöllum og heimild hestamanna til að nota Glaðheimahúsin eru í uppnámi og halda vart lengur. Þetta veldur óöryggi og pirringi og gott starf öflugs hestamannafélags er í uppnámi.

Það er brýnt að bæjaryfirvöld og hestamenn nái sáttum. Sú sátt verður að einkennast af hófsemd og virðingu. Sáttin þarf að ná til hægari uppbyggingar á Kjóavöllum en fyrirhugað var þar sem mjög hefur gengið á sjóði bæjarins. Sáttin þarf að ná til hversu lengi hestamenn geta leigt hesthúsin í Glaðheimum en ólíklegt er að bráðliggi á að rífa húsin. Sáttin þarf einnig að ná til þess hver leigan fyrir hesthúsin þar á að vera og hvernig viðhaldi húsa og hverfis verður háttað.

Það er mikilvægt að skapa ró um þessi mál. Hestamenn í Gusti munu smátt og smátt flytja sig á Kjóavelli og bærinn mun smátt og smátt leggja sitt af mörkum til að gera aðstöðuna þar góða. Í stað þeirra óvissu sem ríkt hefur undanfarin ár verða hestamenn öruggari um stöðu sína og félagið getur einbeitt sér að sínu góða starfi.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband