Er grunnskólinn afplánun eða ...?
9.3.2007 | 18:28
Vitur kona sagði einu sinni við mig að stundum þætti sér eins og litið væri á grunnskólann sem afplánun. Eins og óbærilega langa fangavist þar sem engin náðun væri í boði.
Því miður er allt of mikið til í þessu. Viðhorfið í samfélaginu er í þessa átt. Það er sífellt verið að staglast á því að agi í skólum sé ekki nógu góður. Það sé ekki tekið nógu hart á agabrotum, þess er krafist að nemendum sem brjóta reglur sé refsað með viðeigandi hætti, það þarf að berja einhverju í nemendur, það eru ekki til úrræði og sumir nemendur þurfa að vinna undir eftirliti einhvers.
Þetta viðhorf til grunnskólanna er svo undirstrikað af yfirvöldum með því að þeir sem fullnægja kröfum yfirvalda geti fengið náðun ári fyrr. Hinir verða að sitja af sér öll 10 árin.
Málið er hins vegar að nemendur vilja ekkert endilega losna úr grunnskólanum ári fyrr. Þeir vilja vera í því skemmtilega og góða starfi sem þar er og þeir eru virkir þátttakendur í að móta. Þeir vilja vilja taka 10. bekkinn með félögum sínum, vera elstir í skólanum og leiðtogar í námi og félagslífi.
Hvaða hag hafa unglingar af því að komast ári fyrr í framhaldsskóla? Hvaða hag hafa þeir af því að flýta sér í gegnum skólakerfið? Verða þeir vitrari, ríkari, þroskaðri? Verða þeir betri þjóðfélagsþegnar? Leggja þeir meira af mörkum til samfélagsins?
Það eru ekki þeir krakkar sem best gengur í hinu bóklega námi sem erfiðast eiga innan grunnskólans og það er mikill misskilningur að þau vilji endilega losna úr skólanum. Það er hins vegar allt í lagi að þessi möguleiki sé opinn. En það er annar hópur sem á undir högg að sækja í hinu mjög svo bóknámsmiðaða skólakerfi okkar. Hvar eru viðbrögðin við þeirri staðreynd?
Athugasemdir
Ég er sammála þér í mörgu Hafsteinn. Til dæmis finnst mér umræðan um agamál oft lenda á villigötum og þú lýsir því einmitt mjög vel. En mér finnst fleiri hliðar á málum varðandi möguleika nemenda á að fara í framhaldsskóla upp úr 9. bekk. Vissulega er það rétt að þessir nemendur þurfa að fullnægja vissum skilyrðum en ég held að þar sé ekki síður verið að horfa á mál frá sjónarhóli nemendanna sjálfra heldur en yfirvalda. Þar sem ég þekki til, þ.e. í MA, er afskaplega vel vandað til verka í umsóknarferlinu, þar er ekki síður horft til félagslegra þátta en námslegra. Þú spyrð hvaða hag nemendur hafi af því að koma fyrr í framhaldsskóla. Ég hef heyrt svör frá nemendum eins og: „Síðan ég byrjaði í MA hlakka ég til að fara í skólann á hverjum einasta degi. Það er langt síðan ég man eftir að ég hafi hlakkað til að fara í skólann“. Svo hef ég líka heyrt komment eins og: „Mér finnst frábært að útskrifast fyrr. Árið sem ég útskrifast ætla ég að ferðast um heiminn, fara jafnvel á leiklistarnámskeið í Englandi. Mig langar mest í Listaháskólann í leiklistarnám og það væri örugglega mjög gott að vera búin að fara á námskeið áður. Svo á ég líka, ef mig myndi langa til, möguleika á að gerast skiptinemi en samt útskrifast með jafnöldrum mínum“. Nemendurnir sjálfir sjá sem sagt ekkert síður ávinning af þessu heldur en yfirvöld. Eins og fyrirkomulagið hefur verið í MA varðandi nemendur sem koma upp úr 9. bekk, þá eru aðeins 15-17 nemendur í hóp og mjög vel er haldið utan um hópinn. Hér finnst mér mega líta þannig á að það sé frábært fyrir nemendur að fara í gegnum þetta mjúka aðlögunarferli þegar þeir flytja sig úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Vissulega mætti segja að það ætti að vera í boði líka fyrir þá sem koma úr 10. bekk. Það gæti t.d. hugsanlega dregið úr brottfalli. Ég man t.d. sjálf hvað mér fannst þetta stórt stökk og fannst ég hálfpartinn missa fótanna um tíma.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 22:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.