Það þarf að leiðrétta menntastefnuna

Sem betur fer er umræða um skólamál stöðug og þar er stundum tekist á. Það er deilt um menntastefnu almennt en einnig um starfið í skólunum. Íslenskir kennarar fá reglulega á snúðinn og flestir vita betur en þeir hvernig á að kenna. Þetta er reyndar alþekkt syndróm og fleiri starfsstéttir en kennarar kannast eflaust við þetta.

Ég held að það geti aldrei orðið lognmolla í kringum skólana. Þeir eru sífellt að sækja fram, efla sig og bæta. Þróunar- og nýbreytnistarf skóla kallar á viðbrögð. Allir hafa verið í skóla og vilja helst að hann sé eins og hann var, án þess að menn geti endilega skilgreint það eitthvað frekar. 

En breytingar í skólamálum eru ekki bara vegna þróunar- og nýbreytnistarfs skólanna sjálfra. Yfirvöld, stjórnmálamenn vinna einnig að breytingum. Stundum eru þær óverulegar og hafa í sjálfu sér lítil áhrif en stundum stórar og afdrifaríkar. Á þessu plani eru ákvarðanir teknar sem skipta allt þjóðfélagið máli. Þær eru menntastefnan sem rekin er í landinu.

Í dag eru bullandi átök um menntastefnuna á Íslandi. Það er ekki auðvelt að átta sig á hvar átakapunkturinn liggur.  En nokkuð ljóst er að sjónarmið eru ólík. Á undanförnum árum og áratugum hefur drifkraftur endurbóta á menntakerfum verið af þrennum toga.

  • peningamiðaðar endurbætur leggja áherslu á peningamálin, ekki námskrá. Dæmi um þetta er þegar peningur fylgir hverju barni og foreldrar velja skóla fyrir barn sitt og þangað fer peningurinn. Stundum líka talað um ávísanakerfi.
  • samkeppnismiðaðar endurbætur leggja áherslu á að skólastarfið sé keppni. Keppni milli nemenda, keppni milli skóla. Kannast menn ekki við þetta?
  • jafnréttismiðaðar endurbætur leggja áherslu á að skólinn sé jöfnunartæki og þar eigi allir jafna möguleika.  Jafnrétti allra hópa og áhersla á meira jafnrétti innan samfélagsins.

Í mínum huga er það nokkuð ljóst að íslensk menntastefna hefur á síðustu árum, áratugum jafnvel, færst æ meir að fyrri tveimur þáttunum. Hugmyndir um jafnréttismiðað skólakerfi eiga erfiðara uppdráttar. Rétt er þó að geta þess að hugmyndafræði einstaklingsmiðaðs náms í anda jafnréttis. Líklegt er að menn reki sig á marga veggi þegar þeir gera tilraunir til að taka upp jafnréttismiðaðar starfsaðferðir í anda einstaklingsmiðaðs náms í menntakerfi sem byggir á samkeppni og peningahugsun. Sú hefur einnig orðið raunin, á því leikur engin vafi.

Skólinn á að vera fyrir alla. Þar eiga allir að finna sína fjöl og fá að njóta sín á sínum styrkleikum. Í lögum og reglugerðum um grunnskólann er víða að finna jafnréttissinnaðar áherslur.  Markmiðsgrein grunnskólalaganna, hryggjarstykkið í þeim, tekur t.d. af öll tvímæli þar um. Ég hygg að þurfi að skerpa þessar áherslur, ekki síst núna þegar samfélag okkur verður æ fjölbreyttara að menningu og mannskap.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband