Ísland í auglýsingum "útrásarmanna"
28.5.2007 | 19:55
Mér brá þegar ég kveikti á sjónvarpinu í Lettlandi og íslenska hljómaði úr tækinu. Í barnslegri einfeldni hélt ég að RÚV væri sent um gervihnött til Sigöldu í Lettlandi, þar sem ég var, en sá fljótlega að svo var ekki því lettneskur texti var með myndinni. Þarna voru fallegar landslagsmyndir frá Íslandi, vetrarmyndir aðallega, og karlmannsrödd greindi frá því á íslensku hve landið væri fallegt. Tal hans var textað eins og fyrr segir. Ég hélt því næst að verið væri að sýna náttúrulífsmynd, íslenska.
Eftir svolitla stund segir karlmaðurinn allt í einu að ákveðinn banki sé nú líka kominn til Lettlands. Þá varð ég enn meira hissa því ég vissi ekki að sá banki starfaði á Íslandi og ég hef aldrei heyrt á hann minnst. Kannski hef ég misst af einhverju úr þessum bankaheimi. Kannski starfar þessi íslenski banki á Íslandi og víðar og er nú líka kominn til Lettlands.
Mér finnst menn ganga nokkuð langt í að nota Ísland til að auglýsa bisness sinn úti í heimi. Það er verið að tengja íslenska náttúru við það sem kaupahéðnar eru að sýsla hér og þar um heiminn. Það er verið að nota landið mitt og landið okkar til að draga að sér viðskiptavini. Mér finnst þetta á mörkunum. Af hverju geta menn ekki notað eðlilegar aðferðir við að auglýsa þjónustu sína? Því þurfa þeir að taka landið okkar og blanda því inn í sinn bisness? Dugir ekki sú viðskiptahugmynd sem þeir vinna eftir?
Aukinheldur velti ég fyrir mér hvort þessi auglýsing beri ekki vott um svolitla sjálfumgleði peningamannanna. Í Lettlandi er allt efni í sjónvarpinu döbbað, þ.e. talað er yfir útlenskuna á lettnesku. Nema í þessari auglýsingu. Þar hljómar íslenskan og svo er hún textuð.
Athugasemdir
Þú segir: Þar hljómaði íslenskan og svo er hún textuð???? Er þetta þá íslenskt efni? gert af íslendingum? jafnvel fyrir þessa stofnun sem var með þennan þátt?
Sigfús Sigurþórsson., 30.5.2007 kl. 02:48
Þetta er auglýsing fyrir almenning í Lettlandi og hún er á íslensku og myndefnið er íslenskt. Það er verið að auglýsa banka sem ég hef aldrei heyrt minnst á. Sagt að nú sé hann líka kominn til Lettlands.
Hafsteinn Karlsson, 30.5.2007 kl. 05:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.