Íslensk börn vantaði bara meira dót
21.10.2007 | 18:38
Það var opnuð dótabúð í Kópavogi í síðustu viku. Hún heitir útlensku nafni sem enginn man hvað er eða getur borið rétt fram. Það er svo mikilvægt að búðir heiti útlenskum nöfnum. Vera partur af einhverri keðju sem nær út um allan heim. Það trekkir nefnilega. Allt staðlað og starfsfólkið í búningum eins og í útlöndum.
Stanslaus örtröð hefur verið í búðinni frá því hún opnaði og fyrir utan líka. Létt yfir fólki og gleði yfir því að loksins væri þessi búð komin hingað til Íslands. Eitthvað sem margir höfðu beðið eftir.
Ég vissi ekki að íslensk börn væru í svona mikilli þörf fyrir meira dót. Hélt að þau vantaði kannski meiri tíma með foreldrum sínum því þau eru svo mörg langt fram eftir degi í leikskólanum eða í gæslunni í grunnskólanum.
Nú veit ég betur. Mikið hljóta börnin að vera hamingjusöm með nýja dótið, sem mér sýnist af myndum að dæma vera bæði stórt og fyrirferðarmikið.
Svo á að fara að opna aðra dótabúð fljótlega. Margir hafa líka beðið eftir henni og hópast í biðraðir þar og börnin fá enn meira dót. Svo þurfa foreldrarnir að vinna meira til að borga dótareikninginn.
Efnishyggjan er prentuð inn í börn frá fæðingu. Hamingjan felst í dóti. Ef barninu leiðist er best að fara í dótabúð og kaupa dót. Það færir börnum gleði og hamingjuríkt líf.
Athugasemdir
Er ég að missa af einhverju, eru jólin á morgun?
Ég er miður mín þegar það sést með svo augljósum hætti hversu mikil efnishyggja er hér á landi.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 21.10.2007 kl. 19:00
Takk fyrir góðan fyrirlestur á föstudaginn Hafsteinn. Og ég er svo hjartanlega sammála þér með efnishyggjuna. En þetta eru jú þeir fullorðnu sem stjórnar þessu. Og þegar svona samkeppni á sér stað á leikfangamarkaðnum fyrir jólin verður dótið ódýrt og færra kaupa bækur til jólagjafa er það ekki.
kv
Rósa
Rósa Harðardóttir, 21.10.2007 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.