Samræmdu prófin öll?

Vonandi ná þær tillögur sem nýlega voru kynntar um að leggja niður samræmdu prófin í grunnskólunum fram að ganga. Með því að leggja niður þessi próf skapast færi fyrir íslenska grunnskólann til að sækja fram.

Próf af þessu tagi þjóna þó ákveðnum tilgangi sem sumum finnst e.t.v. eftirsjá í. Í fyrsta lagi gefa þau árlega ógrynni tölulegra upplýsingar sem gaman getur verið að leika sér að og skoða og í öðru lagi eru þau kennurum og skólum aðhald um að standa sig vel í samkeppninni um hæstu meðaltölin.  

Fram yfir þetta tek ég þó nemendurna sem búa til meðaltölin og tölurnar sem út úr samræmdu prófunum koma.

Samræmdu prófin eru afsprengi töludýrkunar og þeirrar trúar að nám í grunnskóla sé keppni, þar sem einhver vinnur. Og þá náttúrulega tapa einhverjir. Hverju skilar skólakerfi sem byggir á slíkri hugmyndafræði? Jú það skilar nokkrum sigurvegurum en það skilar líka mörgum einstaklingum sem hafa tapað. Sem ganga út í lífið eftir tíu ára streð með sárt ennið og tapaðar orrustur.

Samræmdu prófin eru líka afsprengi eftirlits og vantrausts. Skólum og kennurum er ekki treyst til að inna starf sitt vel af hendi, það þarf að hafa eftirlit með því. Hnippa í þá sem eru undir meðaltali og hygla hinum sem hæstu meðaltali skila. Skólastarf fer að miðast við það að ná háu meðaltali í hinum mælanlegu þáttum sem koma á samræmdum prófum. Annað skiptir ekki máli.

Í Bandaríkjunum fara menn offari í mælingum af þessu tagi og þar hafa menn jafnvel orðið uppvísir af því að beita ýmsum miður heiðarlegum brögðum til að koma vel út. Um slíkt höfum við ekki heyrt í okkar skólakerfi, Íslendingar, enn þá. Stundum er reyndar lagt til að ákveðnir nemendur séu heima „veikir“ í samræmdu prófunum. Stundum af tillitssemi við þá svo þeir losni við það sjokk sem 9 ára eða 12 ára barn verður fyrir þegar það mælist í hópi þeirra „getuminnstu“ á öllu landinu. En stundum líka vegna þess að skólinn vill síður láta viðkomandi barn „draga niður meðaltalið“ og þar með útkomu skólans.

Það hefur líka heyrst að skólar vilji halda nemendum sem skora hátt í skólanum hjá sér þó þeir flytji milli hverfa. Nemendur sem skora lágt eru síður eftirsóknarverðir.

Finnska skólakerfið hefur vakið heimsathygli á undanförnum árum fyrir góðan árangur aftur og aftur í alþjóðlegum samanburðarkönnunum á þekkingu nemenda. Finnar skera sig reyndar nokkuð úr að því leyti að þar eru engin samræmd próf. Þar er skólum og kennurum treyst til að gera vel, sem þeir gera. Skólar og kennarar í Finnlandi njóta virðingar samlanda sinna og trausts.

Á Íslandi þekkjast dæmi þess að yfirvöld skólamála í sveitarfélögum nafngreini sérstaklega kennara sem kenna bekkjum sem ná hæsta meðaltali í samræmdum prófum í viðkomandi sveitarfélagi. Í því endurspeglast sérkennileg viðhorf til skólastarfs. Að skólastarf sé keppni en því miður er mælikvarðinn sem notaður er vitlaus.

Vonandi eru samræmdu prófin brátt öll þannig að við getum snúið okkur að alvöru verkefnum í grunnskólunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Hafðu hátt um þetta - fer ekki nógu hátt í íslenskri umræðu. Kannski það merkilegasta í finnska kerfinu og sjálfsagt að e-u leyti afsprengi þess að mennta kennarana vel

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2.5.2007 kl. 19:23

2 identicon

Takk fyrir góðan pistil um þarft umræðuefni. Ég fór á ráðstefnu sem haldin var í apríl á vegum skólaþróunarsviðs, kennaradeildar HA og fjallaði um námsmat Júlíus, forstöðumaður Námsmatsstofnunar kom þar fram með upplýsingar um þessar tillögur sem voru, að ég leyfi mér að álykta, almennt fagnaðarefni öllum þeim sem á hlýddu. Eftir ráðstefnuna ræddi ég þessar tillögur við kennaranemana mína í kennslustund. Þeir eru núna á fyrsta ári. Hvert einasta þeirra lýsti því hversu mikið þeim létti við tilhugsunina um að þessar tillögur myndu verða komnar til framkvæmda þegar þau kæmu út á starfsvettvang. Ég vona að nú verði ermar brettar upp þannig að þeim og öðrum starfandi kennurum verði að ósk sinni

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband