Sátt milli bæjaryfirvalda og hestamanna í Kópavogi
23.2.2010 | 22:51
Frá því að braskarar fóru að kaupa upp hesthús á félagssvæði Gusts í gróðaskyni haustið 2005 hefur blásið um hestamenn í Kópavogi. Veturinn sem fylgdi í kjölfarið hlýtur að vera félagsmönnum Gusts eftirminnilegur. Þeir reyndu að standa vörð um félagið sitt meðan hart var að þeim sótt og þeim boðnar fúlgur fjár, ef þeir seldu hesthúsin. Sumir seldu en margir sátu fastir á sínu og létu ekki glepjast af gylliboðunum. Uppkaupsmennirnir komust í þrot á miðjum vetri þegar þeir höfðu ekki aðgang að meira fé. Þeir voru nokkuð fjarri markmiði sínu, að ná undir sig öllum hesthúsunum. En þá barst þeim hjálp úr óvæntri átt. Meirihluti bæjarstjórnar, undir forystu þáverandi bæjarstjóra, losaði þá úr snörunni og keypti af þeim hesthúsin sem þeir voru búnir að kaupa. Uppkaupsmennirnir fengu með þessum hætti nokkur hundruð milljónir úr bæjarsjóði í sinn vasa í hagnað. Svo buðu bæjaryfirvöld hestamönnum sem ekki höfðu selt húsin sín verð langt yfir markaðsvirði fyrir húsin. Sömdu jafnframt við þá um að byggja upp nýtt hesthúsahverfi á Kjóavöllum.
Leiðin sem var farin var peningamiðuð. Allir áttu að græða svo mikið. Hestamenn áttu að græða mikið á því að selja hesthúsin sín og bærinn átti að græða mikið á því að fá Glaðheimasvæðið undir viðskipta- og fjármálahverfi á heimsvísu. En græddi einhver á þessu? Jú vissulega græddu braskararnir eins og áður er getið og hestamennirnir fengu fullt af peningum fyrir húsin sín. Þeir þurftu að geyma þá þar til hægt væri að byggja nýtt hesthús á Kjóavöllum. Þegar ljóst var að það myndi dragast keyptu sumir sér hús í Hafnarfirði eða Reykjavík og yfirgáfu þar með hestamannafélagið sitt. Aðrir biðu með peningana sína inn á bankareikningum þar sem þeir þurrkuðust að mestu út þann 6. október árið 2008. Kópavogsbær hefur ekki hagnast á þessum viðskiptum. Peningar sem áttu að streyma í bæjarsjóð vegna þessa snjalla gjörnings hafa ekki skilað sér. Þvert á móti hefur þetta kostað bæjarsjóð og skattgreiðendur verulega fjármuni. Vonandi skilar þessi fjárfesting sér þó í framtíðinni.
Ég ásamt félögum mínum í minnihlutanum í bæjarstjórn tók harða afstöðu gegn þessu öllu saman. Við lögðum til að smátt og smátt yrði hesthúsahverfið flutt að Kjóavöllum með því að eigendur fengju nýtt hús þar gegn gamla húsinu í Glaðheimum. Við fengum bágt fyrir þá, en ég hygg að margur vildi nú að sú leið hefði verið farin.
Uppbygging á Kjóavöllum hefur gengið miklu hægar en fyrirhugað var og efnahagshrunið setur þar mikið strik í reikninginn. Enn eru hesthúsin í Glaðheimum í notkun og verða líklega enn um sinn. Samningar sem gerðir voru á sínum tíma um uppbygginguna á Kjóavöllum og heimild hestamanna til að nota Glaðheimahúsin eru í uppnámi og halda vart lengur. Þetta veldur óöryggi og pirringi og gott starf öflugs hestamannafélags er í uppnámi.
Það er brýnt að bæjaryfirvöld og hestamenn nái sáttum. Sú sátt verður að einkennast af hófsemd og virðingu. Sáttin þarf að ná til hægari uppbyggingar á Kjóavöllum en fyrirhugað var þar sem mjög hefur gengið á sjóði bæjarins. Sáttin þarf að ná til hversu lengi hestamenn geta leigt hesthúsin í Glaðheimum en ólíklegt er að bráðliggi á að rífa húsin. Sáttin þarf einnig að ná til þess hver leigan fyrir hesthúsin þar á að vera og hvernig viðhaldi húsa og hverfis verður háttað.
Það er mikilvægt að skapa ró um þessi mál. Hestamenn í Gusti munu smátt og smátt flytja sig á Kjóavelli og bærinn mun smátt og smátt leggja sitt af mörkum til að gera aðstöðuna þar góða. Í stað þeirra óvissu sem ríkt hefur undanfarin ár verða hestamenn öruggari um stöðu sína og félagið getur einbeitt sér að sínu góða starfi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í samræmi við íslenska menntastefnu
15.3.2008 | 10:36
Þetta er athyglisverður samanburður og gefur tilefni til að rýna svolítið ofan í skólakerfið okkar. Þarna kemur líka skýrt fram að laun kennara á Íslandi eru með því lægsta sem þekkist í OECD löndunum. Það hlýtur að vera verulegt áhyggjuefni en tækifæri til að lagfæra það gefst í samningunum sem standa yfir akkúrat núna.
Mönnun skólanna helst í hendur íslenska menntastefnu. Íslenski grunnskólinn stendur grunnskólum í flestum öðrum löndum framar og býður öll börn velkomin inn í skólastofurnar. Aðgreining hér á landi er minni en í flestum öðrum löndum. Sérdeildir og sérskólar hafa verið lagðir niður og dyr kennslustofanna opnaðar fyrir öllum börnum. Við erum með um 1% allra nemenda í sérskólum og sérdeildum á meðan t.d. Finnar eru með yfir 7%. Þetta kallar í fyrsta lagi á það að bekkir hér geta ekki verið fjölmennir og í öðru lagi þarf fleira fólk. Sum börn, sem í öðrum löndum væru í sérdeild eða sérskóla, þurfa sérstaka aðstoð inn í almennum bekk. Menntastefna okkar krefst meiri mannafla en stefna aðgreiningar en hún er mannúðlegri og skilar sterkari einstaklingum út úr skólunum.
Undanfarna daga hef ég haft gesti í mínum skóla frá Ástralíu og Þýskalandi sem hafa sérstaklega verið að kynna sér hvernig við sinnum börnum með t.d. einhverfu, ofvirkni og athyglisbrest. Þeir eiga ekki orð til að lýsa ánægju sinni með hvernig við vinnum að þessum málum hér á Íslandi og um leið lýsa þeir yfir stakri óánægju með hvernig tekið er á þeim í þeirra heimalöndum.
Við getum verið stolt af okkar skólum.
Dýrt skólakerfi en launin lág | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir á Glaðheimasvæði var unnið umhverfismat, en lög kveða á um að slíkt sé gert. Bæjarskipulagið stóð að umhverfismatinu ásamt fleiri aðilum. Matið er ugglaust faglega unnið og samkvæmt þeim kröfum og leiðbeiningum sem koma fram í lögum. En fyrir leikmenn og óbreytta borgara er ýmislegt sem stingur í augu og vekur athygli. Rétt er að geta þess að umhverfismat þetta tekur eingöngu til bygginga á Glaðheimasvæðinu til viðbótar við það sem nú er, en ekki þeirra hugmynda sem eru í vinnslu um byggingar sunnan við Smáralind og við Dalveg, né heldur til þess ef annar turn rís á Smáratorgi í stað hússins sem hýsir nú Bónus og Rúmfatalagerinn.
Í skýrslu um umhverfismat eru áhrif á umhverfið metið út frá tveimur kostum, þ.e. ef byggt er á Glaðheimasvæðinu skv. þeirri tillögu sem liggur fyrir og ef ekkert er byggt. Metið er út frá fimm umhverfisþáttum andrúmslofti, borgarlandslagi, félagslegu umhverfi, efnahag og atvinnulífi og eignum.
AndrúmsloftÁhrif á andrúmsloft eru klárlega neikvæð en athygli vekur að í skýrslunni er áhrifin á andrúmsloftið einnig neikvæð ef ekkert er byggt. Reyndar er þess getið að þau verði meiri en ella ef byggt er í Glaðheimum. Ekki er bent á neinar mótvægisaðgerðir gegn mengun aðrar en þær að koma upp hreyfanlegri mælistöð sem mælir loftgæði. Svo er sagt: Með því að fylgjast með loftgæðum er stuðlað að því að mengun verði haldið í lágmarki... Mæling ein og sér getur ekki stuðlað að minni mengun og hvað ætla menn að gera? Staðreyndin er einfaldlega sú að mótvægisaðgerðir gegn mengun vegna útblásturs frá bílum og svifryks eru harla erfiðar og illframkvæmanlegar.
BorgarlandslagÍ skýrslunni er sagt að byggðin verði að nokkru leyti háreist og nú þegar sé byrjað að reisa háhýsi í Smáranum og að stefnt sé að því að halda því áfram. Einnig segir að gera megi ráð fyrir að Smárinn muni skapa sér sérkenni á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum fyrir þessar sakir. Bent er á að bygging háreistra bygginga sé umdeild og síðan kemur þessi gullvæga fullyrðing: Áhrifin eru jákvæð þegar horft er til heildarmyndarinnar og yfirbragðs svæðisins en neikvæð í augum þeirra sem ekki kunna við háreista byggð. Í ljósi þessa eru áhrif á borgarlandslagið talin bæði jákvæð og neikvæð. Ef ekkert er gert á svæðinu eru áhrifin einnig metin bæði jákvæð og neikvæð, því að núverandi hesthúsabyggð fellur illa að heildaryfirbragði svæðisins en er jákvæð í augum þeirra sem ekki kunna við háreista byggð. Ergo þeir sem ekki vilja háhýsi þarna vilja hafa hesthúsin. Tja, skyldu nú allir vera sammála þessu?
Félagslegt umhverfiÍ umfjöllun um félagslegt umhverfi eru tveir þættir nefndir þ.e. skólamál og hljóðvist. Þar sem gert er ráð fyrir 350 íbúðum á svæðinu búast menn við að þar verði um 130 börn á grunnskólaaldri. Þeim á að skipta á tvo skóla, Lindaskóla og Smáraskóla. Á leið sinni í Smáraskóla fara börnin fyrst yfir 12 akreina Reykjanesbraut og svo yfir 4-6 akreina Fífuhvammsveg. Mótvægisaðgerðir gegn barnafjölda í hverfinu eru fyrst og fremst að selja hluta þeirra til 60 ára og eldri eða hafa þær það litlar að fólk með börn flytji ekki í þær. Í skýrslunni er sagt að gera megi ráð fyrir að hljóðstig aukist meðfram helstu umferðaræðum. Ekki er kveðið á um mótvægisaðgerðir heldur sagt að þörf á þeim skuli metin síðar.
Efnahagur og atvinnulífÞessi umhverfisþáttur kemur mörgum leikmönnum á óvart enda almennt ekki talinn hefðbundinn umhverfisþáttur. Hann hefur hins vegar blússandi jákvæð áhrif í umhverfismatinu enda gert ráð fyrir mikilli atvinnustarfsemi. Mörgum kann að þykja þetta stangast á við hefðbundinn skilning á umhverfismálum. Þegar almenningur hugsar um umhverfismál koma ekki fyrst upp í hugann efnahagur og atvinnulíf. Hins vegar leiðir uppbygging efnahags og atvinnulífs oft til árekstra við umhverfið sem menn reyna að meta í umhverfismati og finna leiðir til að draga úr áhrifum þess á umhverfið. Hér er þessi liður einn af umhverfisþáttunum og hann hefur afar jákvæð áhrif í umhverfismatinu.
EignirÞað kann að koma mörgum leikmanninum spánskt fyrir sjónir að nærliggjandi húsnæði er einn af umhverfisþáttunum. Uppbygging á Glaðheimasvæðinu er talin hafa jákvæð áhrif á verðmæti eigna og því er þessi þáttur afar jákvæður.
Miklu meiri mengun og hávaði en...Þegar á heildina er litið eru áhrif þess að reisa mikla og háreista byggð á Glaðheimasvæðinu afar jákvæð skv. umhverfismatinu. Hefðbundnir umhverfisþættir eins og mengun og hávaði koma að vísu afar illa út og sjónræn áhrif eru smekksatriði. En þeir þættir sem lyfta matinu hvað mest í jákvæðni geta varla talist umhverfismál í hefðbundnum skilningi. Niðurstaða matsins er því miklu meiri mengun og hávaði en af því að verðmat nærliggjandi húsa eykst og efnahagur og atvinnulíf verður blómlegra en er nú í hesthúsahverfinu þá er afar jákvætt út frá umhverfissjónarmiðum að fyrirhuguð byggð rísi í Glaðheimum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslensk börn vantaði bara meira dót
21.10.2007 | 18:38
Það var opnuð dótabúð í Kópavogi í síðustu viku. Hún heitir útlensku nafni sem enginn man hvað er eða getur borið rétt fram. Það er svo mikilvægt að búðir heiti útlenskum nöfnum. Vera partur af einhverri keðju sem nær út um allan heim. Það trekkir nefnilega. Allt staðlað og starfsfólkið í búningum eins og í útlöndum.
Stanslaus örtröð hefur verið í búðinni frá því hún opnaði og fyrir utan líka. Létt yfir fólki og gleði yfir því að loksins væri þessi búð komin hingað til Íslands. Eitthvað sem margir höfðu beðið eftir.
Ég vissi ekki að íslensk börn væru í svona mikilli þörf fyrir meira dót. Hélt að þau vantaði kannski meiri tíma með foreldrum sínum því þau eru svo mörg langt fram eftir degi í leikskólanum eða í gæslunni í grunnskólanum.
Nú veit ég betur. Mikið hljóta börnin að vera hamingjusöm með nýja dótið, sem mér sýnist af myndum að dæma vera bæði stórt og fyrirferðarmikið.
Svo á að fara að opna aðra dótabúð fljótlega. Margir hafa líka beðið eftir henni og hópast í biðraðir þar og börnin fá enn meira dót. Svo þurfa foreldrarnir að vinna meira til að borga dótareikninginn.
Efnishyggjan er prentuð inn í börn frá fæðingu. Hamingjan felst í dóti. Ef barninu leiðist er best að fara í dótabúð og kaupa dót. Það færir börnum gleði og hamingjuríkt líf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ísland í auglýsingum "útrásarmanna"
28.5.2007 | 19:55
Mér brá þegar ég kveikti á sjónvarpinu í Lettlandi og íslenska hljómaði úr tækinu. Í barnslegri einfeldni hélt ég að RÚV væri sent um gervihnött til Sigöldu í Lettlandi, þar sem ég var, en sá fljótlega að svo var ekki því lettneskur texti var með myndinni. Þarna voru fallegar landslagsmyndir frá Íslandi, vetrarmyndir aðallega, og karlmannsrödd greindi frá því á íslensku hve landið væri fallegt. Tal hans var textað eins og fyrr segir. Ég hélt því næst að verið væri að sýna náttúrulífsmynd, íslenska.
Eftir svolitla stund segir karlmaðurinn allt í einu að ákveðinn banki sé nú líka kominn til Lettlands. Þá varð ég enn meira hissa því ég vissi ekki að sá banki starfaði á Íslandi og ég hef aldrei heyrt á hann minnst. Kannski hef ég misst af einhverju úr þessum bankaheimi. Kannski starfar þessi íslenski banki á Íslandi og víðar og er nú líka kominn til Lettlands.
Mér finnst menn ganga nokkuð langt í að nota Ísland til að auglýsa bisness sinn úti í heimi. Það er verið að tengja íslenska náttúru við það sem kaupahéðnar eru að sýsla hér og þar um heiminn. Það er verið að nota landið mitt og landið okkar til að draga að sér viðskiptavini. Mér finnst þetta á mörkunum. Af hverju geta menn ekki notað eðlilegar aðferðir við að auglýsa þjónustu sína? Því þurfa þeir að taka landið okkar og blanda því inn í sinn bisness? Dugir ekki sú viðskiptahugmynd sem þeir vinna eftir?
Aukinheldur velti ég fyrir mér hvort þessi auglýsing beri ekki vott um svolitla sjálfumgleði peningamannanna. Í Lettlandi er allt efni í sjónvarpinu döbbað, þ.e. talað er yfir útlenskuna á lettnesku. Nema í þessari auglýsingu. Þar hljómar íslenskan og svo er hún textuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nokkrar góðar ástæður til að kjósa Samfylkinguna í dag
12.5.2007 | 09:32
Í dag fáum við tækifæri til að velja. Baráttan er hörð og úrslit ekki gefin. Í raun má segja að valið standi milli nýrrar framtíðar, nýrra hugmynda og þeirrar stöðnunar sem einkennir núverandi ríkisstjórn.
Samfylkingin er eina stjórnmálaaflið sem getur og vill leiða breytingar og framfarasókn með hagsmuni fjöldans í öndvegi. Hér tíni ég til nokkrar góðar ástæður til að kjósa Samfylkinguna.
Með því að kjósa Samfylkinguna kýstu ferskan andblæ í stað doða og hugmyndaleysis núverandi ríkisstjórnar.
- efnahagslegur stöðugleiki, lækkandi vextir og verðbólga
- þróttmikið atvinnulíf.
- leggja niður samræmd próf, auka faglegt sjálfstæði skóla, draga úr miðstýringu og auka valfrelsi nemenda.
- bæta úr vanrækslusyndum ríkisstjórnarinnar á sviði velferðarmála og binda enda á hreppaflutninga og biðlistavæðingu velferðarþjónustunnar.
Með því að kjósa Samfylkinguna stuðlar þú að því að Íslandi fái sess meðal grannþjóða, en ekki sæti hornreku eða hlutskipti taglhnýtings
- aðild að Evrópusambandinu
- upptaka evru til hagsbóta fyrir almenning og smærri fyrirtæki
- afturköllun stuðnings Íslands við Íraksstríðið
Með því að kjósa Samfylkinguna veitir þú nýrri kynslóð jafnaðarmanna brautargengi. Þetta er öflugt fólk sem er við þröskuld Alþingis. Árni Páll Árnason í 4. sæti í Kraganum, Guðmundur Steingrímsson situr í 5. sæti Samfylkingarinnar í Kraganum og á nú góða möguleika á þingsæti. Kristrún Heimisdóttir, Róbert Marshall og Guðný Hrund Karlsdóttir eru ásamt þeim að banka á dyrnar. Margrét Kristín Helgadóttir, Reynir Harðarson og Helga Vala Helgadóttir eru skammt undan.
Atkvæði greitt Samfylkingunni hvar sem er á landinu nýtist okkur öllum til sóknar inn á þing.
Kjóstu Samfylkinguna í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í finnskum æfingaskóla fyrir kennaranema
9.5.2007 | 07:43
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stanslausar Júróvisíonfréttir
7.5.2007 | 13:26
Nú helga ég líf mitt Júróvisíon eins og fólk gerir hér í Helsinki. Ég sendi látlaust fréttir af götum borgarinnar inn á http://hafsteinn.hexia.net
Fréttirnar eru í formi texta, mynda og hljóðupptaka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Júróvisíonreynsla miðaldra karlmanns
6.5.2007 | 14:18
Ég hef verið hér í Helsinki frá áramótum. Ég vissi að Júróvisíon yrði hérna í maí og var nú ekkert sérstaklega spenntur. Gantaðist með það svona að ég yrði í salnum klæddur marimekkófötum og íslenski fáninn málaður framan í mig.
Svo þegar ég kom hérna þá áttaði ég mig fljótlega á að Finnar taka því mjög alvarlega að halda þessa keppni. Auk þess að vera með skemmtilega og vandaða forkeppni hafa verið margir þættir á nokkrum sjónvarpsstöðvum um Júróvísíon. Búið að margrifja upp lögin frá upphafi frá öllum sjónarhornum og hliðum.
Smátt og smátt hef ég orðið áhugasamari. Fylgdist reyndar spenntur með forkeppninni og var glaður þegar Hanna Pakkarinen vann. Hélt með henni. En svo fór ég að detta inn í alla hina þættina. Fyrst óvart en fylgdist svo vandlega með sjónvarpsdagskránni og hef passað að láta ekkert fram hjá mér fara.
Um páskana velti ég því fyrir mér hvort ég gæti ekki keypt miða á Júróvisíon. Fór í miðasöluna og þá var mögulegt að fá miða á þriðju síðustu æfingu fyrir keppni. Ég var að rífa upp veskið til að kaupa miða þegar ég áttaði mig. Þetta var náttúrulega algjörlega út í hött. Gekk út miðalaus. Skömmu síðar bauðst mér miði á 200 , en afþakkaði. Fannst það einfaldlega okur.
Svo dvínaði áhuginn og ég varð leiður á þessu Júróvísíon rugli. En þegar ég gekk fram hjá Júróvisíon þorpinu áðan þá vaknaði áhuginn aftur. Ég hlustaði þar á armenska fulltrúann syngja sitt lag og klappaði með og söng með í viðlaginu. Svo fór ég og keypti mér Júróvísion bol og hálsmen handa Ebbu. Tók svo mynd af okkur á símann minn og sendi á hitt bloggið - http://hafsteinn.hexia.net
Ég ætla bara að fylgjast með þessu og hrífast með. Fara á Júróvisíon karokí í vikunni og svona. Taka bara fullan þátt í þessu öllu. Af hverju ætti ég ekki að gera það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það þarf að leiðrétta menntastefnuna
3.5.2007 | 06:56
Sem betur fer er umræða um skólamál stöðug og þar er stundum tekist á. Það er deilt um menntastefnu almennt en einnig um starfið í skólunum. Íslenskir kennarar fá reglulega á snúðinn og flestir vita betur en þeir hvernig á að kenna. Þetta er reyndar alþekkt syndróm og fleiri starfsstéttir en kennarar kannast eflaust við þetta.
Ég held að það geti aldrei orðið lognmolla í kringum skólana. Þeir eru sífellt að sækja fram, efla sig og bæta. Þróunar- og nýbreytnistarf skóla kallar á viðbrögð. Allir hafa verið í skóla og vilja helst að hann sé eins og hann var, án þess að menn geti endilega skilgreint það eitthvað frekar.
En breytingar í skólamálum eru ekki bara vegna þróunar- og nýbreytnistarfs skólanna sjálfra. Yfirvöld, stjórnmálamenn vinna einnig að breytingum. Stundum eru þær óverulegar og hafa í sjálfu sér lítil áhrif en stundum stórar og afdrifaríkar. Á þessu plani eru ákvarðanir teknar sem skipta allt þjóðfélagið máli. Þær eru menntastefnan sem rekin er í landinu.
Í dag eru bullandi átök um menntastefnuna á Íslandi. Það er ekki auðvelt að átta sig á hvar átakapunkturinn liggur. En nokkuð ljóst er að sjónarmið eru ólík. Á undanförnum árum og áratugum hefur drifkraftur endurbóta á menntakerfum verið af þrennum toga.
- peningamiðaðar endurbætur leggja áherslu á peningamálin, ekki námskrá. Dæmi um þetta er þegar peningur fylgir hverju barni og foreldrar velja skóla fyrir barn sitt og þangað fer peningurinn. Stundum líka talað um ávísanakerfi.
- samkeppnismiðaðar endurbætur leggja áherslu á að skólastarfið sé keppni. Keppni milli nemenda, keppni milli skóla. Kannast menn ekki við þetta?
- jafnréttismiðaðar endurbætur leggja áherslu á að skólinn sé jöfnunartæki og þar eigi allir jafna möguleika. Jafnrétti allra hópa og áhersla á meira jafnrétti innan samfélagsins.
Í mínum huga er það nokkuð ljóst að íslensk menntastefna hefur á síðustu árum, áratugum jafnvel, færst æ meir að fyrri tveimur þáttunum. Hugmyndir um jafnréttismiðað skólakerfi eiga erfiðara uppdráttar. Rétt er þó að geta þess að hugmyndafræði einstaklingsmiðaðs náms í anda jafnréttis. Líklegt er að menn reki sig á marga veggi þegar þeir gera tilraunir til að taka upp jafnréttismiðaðar starfsaðferðir í anda einstaklingsmiðaðs náms í menntakerfi sem byggir á samkeppni og peningahugsun. Sú hefur einnig orðið raunin, á því leikur engin vafi.
Skólinn á að vera fyrir alla. Þar eiga allir að finna sína fjöl og fá að njóta sín á sínum styrkleikum. Í lögum og reglugerðum um grunnskólann er víða að finna jafnréttissinnaðar áherslur. Markmiðsgrein grunnskólalaganna, hryggjarstykkið í þeim, tekur t.d. af öll tvímæli þar um. Ég hygg að þurfi að skerpa þessar áherslur, ekki síst núna þegar samfélag okkur verður æ fjölbreyttara að menningu og mannskap.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)