Færsluflokkur: Bloggar

Samræmdu prófin öll?

Vonandi ná þær tillögur sem nýlega voru kynntar um að leggja niður samræmdu prófin í grunnskólunum fram að ganga. Með því að leggja niður þessi próf skapast færi fyrir íslenska grunnskólann til að sækja fram.

Próf af þessu tagi þjóna þó ákveðnum tilgangi sem sumum finnst e.t.v. eftirsjá í. Í fyrsta lagi gefa þau árlega ógrynni tölulegra upplýsingar sem gaman getur verið að leika sér að og skoða og í öðru lagi eru þau kennurum og skólum aðhald um að standa sig vel í samkeppninni um hæstu meðaltölin.  

Fram yfir þetta tek ég þó nemendurna sem búa til meðaltölin og tölurnar sem út úr samræmdu prófunum koma.

Samræmdu prófin eru afsprengi töludýrkunar og þeirrar trúar að nám í grunnskóla sé keppni, þar sem einhver vinnur. Og þá náttúrulega tapa einhverjir. Hverju skilar skólakerfi sem byggir á slíkri hugmyndafræði? Jú það skilar nokkrum sigurvegurum en það skilar líka mörgum einstaklingum sem hafa tapað. Sem ganga út í lífið eftir tíu ára streð með sárt ennið og tapaðar orrustur.

Samræmdu prófin eru líka afsprengi eftirlits og vantrausts. Skólum og kennurum er ekki treyst til að inna starf sitt vel af hendi, það þarf að hafa eftirlit með því. Hnippa í þá sem eru undir meðaltali og hygla hinum sem hæstu meðaltali skila. Skólastarf fer að miðast við það að ná háu meðaltali í hinum mælanlegu þáttum sem koma á samræmdum prófum. Annað skiptir ekki máli.

Í Bandaríkjunum fara menn offari í mælingum af þessu tagi og þar hafa menn jafnvel orðið uppvísir af því að beita ýmsum miður heiðarlegum brögðum til að koma vel út. Um slíkt höfum við ekki heyrt í okkar skólakerfi, Íslendingar, enn þá. Stundum er reyndar lagt til að ákveðnir nemendur séu heima „veikir“ í samræmdu prófunum. Stundum af tillitssemi við þá svo þeir losni við það sjokk sem 9 ára eða 12 ára barn verður fyrir þegar það mælist í hópi þeirra „getuminnstu“ á öllu landinu. En stundum líka vegna þess að skólinn vill síður láta viðkomandi barn „draga niður meðaltalið“ og þar með útkomu skólans.

Það hefur líka heyrst að skólar vilji halda nemendum sem skora hátt í skólanum hjá sér þó þeir flytji milli hverfa. Nemendur sem skora lágt eru síður eftirsóknarverðir.

Finnska skólakerfið hefur vakið heimsathygli á undanförnum árum fyrir góðan árangur aftur og aftur í alþjóðlegum samanburðarkönnunum á þekkingu nemenda. Finnar skera sig reyndar nokkuð úr að því leyti að þar eru engin samræmd próf. Þar er skólum og kennurum treyst til að gera vel, sem þeir gera. Skólar og kennarar í Finnlandi njóta virðingar samlanda sinna og trausts.

Á Íslandi þekkjast dæmi þess að yfirvöld skólamála í sveitarfélögum nafngreini sérstaklega kennara sem kenna bekkjum sem ná hæsta meðaltali í samræmdum prófum í viðkomandi sveitarfélagi. Í því endurspeglast sérkennileg viðhorf til skólastarfs. Að skólastarf sé keppni en því miður er mælikvarðinn sem notaður er vitlaus.

Vonandi eru samræmdu prófin brátt öll þannig að við getum snúið okkur að alvöru verkefnum í grunnskólunum.

Er grunnskólinn afplánun eða ...?

Vitur kona sagði einu sinni við mig að stundum þætti sér eins og litið væri á grunnskólann sem afplánun. Eins og óbærilega langa fangavist þar sem engin náðun væri í boði. 

Því miður er allt of mikið til í þessu. Viðhorfið í samfélaginu er í þessa átt. Það er sífellt verið að staglast á því að „agi“ í skólum sé ekki nógu góður. Það sé ekki „tekið nógu hart á agabrotum“, þess er krafist að nemendum sem “brjóta reglur„ sé „refsað“ með viðeigandi hætti, það þarf að „berja“ einhverju í nemendur, það eru ekki til „úrræði“ og sumir nemendur þurfa að „vinna undir eftirliti“ einhvers.

Þetta viðhorf til grunnskólanna er svo undirstrikað af yfirvöldum með því að þeir sem fullnægja kröfum yfirvalda geti fengið náðun ári fyrr. Hinir verða að sitja af sér öll 10 árin. 

Málið er hins vegar að nemendur vilja ekkert endilega „losna“ úr grunnskólanum ári fyrr. Þeir vilja vera í því skemmtilega og góða starfi sem þar er og þeir eru virkir þátttakendur í að móta. Þeir vilja vilja taka 10. bekkinn með félögum sínum, vera elstir í skólanum og leiðtogar í námi og félagslífi.

Hvaða hag hafa unglingar af því að komast ári fyrr í framhaldsskóla? Hvaða hag hafa þeir af því að flýta sér í gegnum skólakerfið? Verða þeir vitrari, ríkari, þroskaðri? Verða þeir betri þjóðfélagsþegnar? Leggja þeir meira af mörkum til samfélagsins?

Það eru ekki þeir krakkar sem best gengur í hinu bóklega námi sem erfiðast eiga innan grunnskólans og það er mikill misskilningur að þau vilji endilega losna úr skólanum. Það er hins vegar allt í lagi að þessi möguleiki sé opinn. En það er annar hópur sem á undir högg að sækja í hinu mjög svo bóknámsmiðaða skólakerfi okkar. Hvar eru viðbrögðin við þeirri staðreynd?

 


Nóg í bili - meira síðar

Í kjölfar mikillar umræðu um skólamál hér á blogginu fyrir röskri viku setti ég inn nokkra pistla með það fyrir augum að beina umræðunni að innihaldi skólastarfsins. 

Ég er nú í miklum  önnum og hef ekki tíma fyrir meiri bloggumræðu í bili og mun því ekkert setja inn á þennan vef á næstunni, nema eitthvað alveg sérstakt komi til.

Ég ætla samt að halda áfram að segja frá því sem á daga mína drífur hér í Finnlandi á hinu blogginu mínu: http://hafsteinn.hexia.net

 


Getur skólinn flokkað börn í góða og lélega nemendur?

Í skólakerfinu hefur lengi viðgengist að flokka börn eftir ákveðnu mælikerfi. Þetta var kannski skiljanlegt hér áður fyrr en ég get alls ekki skilið hvers vegna þessu er haldið áfram og nú inn í 21. öldina.

Ég var að glugga í nýja Aðalnámskrá grunnskóla, dagsettri 20. desember 2006 og undirrituð af menntamálarráðherra. Þar segir á einum stað: 

„Eitt mikilvægasta úrlausnarefni skóla og skólayfirvalda í þessu sambandi er að finna leiðir til að koma til móts við ólíka getu og ólík áhugamál nemenda, þ.e. að veita nemendum menntun við hæfi hvers og eins.“

Þessu er ég sammála og tel þetta einmitt stóra verkefni grunnskólans í dag. En við lestur Aðalnámskrárinnar get ég ekki séð annað en að áfram skuli haldið á sömu braut og við höfum verið, þ.e. að flokka nemendur í góða og lélega. Sbr.:

„Grunnskólar eiga að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli, börn úr afskekktum byggðarlögum, börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu."

Í þessari litlu klausu koma fram ýmsir flokkar barna og sum raðast jafnvel í fleiri en einn flokk. Vissulega getur verið gagnlegt í kerfinu að nota flokkun til einhvers er þetta er dálítið mikið. Hefði ekki nægt að segja þarna: „Þetta á við um öll börn“? Reyndar tala menn stundum um ásigkomulag bíla og þá oft þeirra sem eru hálfgerðar druslur, en mér finnst það ekki passa þegar talað eru um börn. Að það sé eitthvað ásigkomulag á þeim þegar þau mæta í skólann og þar eigi svo að koma þeim í betra ásigkomulag. 

Annað sem ég hnýt um þarna er þegar talað er um „afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli“. Þarna er mælistikan í allri sinni dýrð. Á öðrum endanum eru „afburðagreind“ börn en hinum „greindarskert“ og svo raðast hinir á milli. Normal nemandinn er líklega einhversstaðar í miðjunni, eða hvað, skyldi hann kannski vera nær hinum afburðagreindu? Er mælikvarðinn þá ekki eitthvað vitlaus?

Á þessari mælistiku skólakerfisins rekumst við á ýmis orð sem notuð hafa verið yfir börn sem ekki hafa fallið að kerfinu. „Seinfærir“ nemendur, nemendur með „sérþarfir“ (hver er annars ekki með einhverjar sérþarfir?), nemendur með „hegðunarfrávik“, nemendur með „sértæka námsörðugleika“ o.s.frv. 

Á síðustu áratugum hafa komið fram kenningar um að greindirnar séu nú fleiri en þær sem skólakerfið leggur áherslu á. Gardner talar um 8 greindir en skólinn er aðallega að vinna í tveimur. Og ekki er að sjá að neinar sérstakar breytingar verði þar á. Meginþunginn í skólakerfinu liggur í hefðbundnu bóknámi sem allir verða að dröslast í gegnum. Og þeir sem ekki eru með styrkleika sína á því sviði, fara í flokkana sem nefndir eru hér að ofan.

Öll íslensk grunnskólabörn eru svo mæld þrisvar á skólagöngunni og borin saman við jafnaldra sína á landinu. Samræmd próf í 9 ára, 12 ára og lokabekk grunnskóla sem að sjálfsögðu reyna bara á tvo flokka greinda. Og flokkuð eftir því og með þeim hætti að það fari nú hvorki fram hjá þeim en öðrum. Nemendur fá meira að segja greinargóðar upplýsingar um hvort þeir eru í hópi þeirra lélegustu á landinu eða hvar þeir eru á kvarðanum.

Af hverju finnst okkur þetta í lagi? Þetta kerfi er skapað af fólki sem hefur staðið sig vel í skóla. Á góðar minningar úr skóla, fékk góðar einkunnir og gekk menntaveginn. Var jafnvel „afburðagreint“. Þurfti allavega ekki að bera stimpil um „sér - eitthvað“ sem lítið barn eða unglingur. Hafði gaman af bóknámi og gekk vel. Og finnst bara að kerfið eigi að vera svona. Ég hef oft hitt fullorðið fólk sem á vondar minningar í skóla. Gekk þaðan út með brostna sjálfsmynd og litla trú á sjálft sig. Nýlega hitti ég t.d skemmtilegan mann um fertugt sem ég spjallaði svolítið við. Þegar talið barst að skóla þyngdist svipur hans og hann sagði: „Mér gekk aldrei vel í skóla, ég er svo vitlaus.“

Er ekki tímabært að breyta þessu? Búa til kerfi fyrir börnin en ekki reyna að laga börnin að kerfinu. 

Ég spyr bara eru til léleg börn? Eru ekki bara til góð börn? 


Á skólinn að sinna uppeldi eða menntun?

Í athugasemd við pistil minn hér að neðan veltir Páll Vilhjálmsson eftirfarandi fyrir sér: 

„Mér hefur sýnst tvö meginsjónarmið vera höfð í frammi um hlutverk grunnskólastarfs. Með fyrirvara um alhæfingar líta þau einhvern veginn svona út.

Í einn stað eru það skólamenn sem leggja áherslu á breiddina í skólastarfinu og að skólinn sinni ólíkum þörfum nemenda, ekki síst þeim sem þurfa á sérstuðningi að halda og félagslegum úrræðum. Uppeldi er ekki síður mikilvægt en menntun samkvæmt þessu sjónarmiði.

Í annan stað eru það sjónarmið sem segja menntun mikilvægasta þáttinn í skólastarfinu. Hlutverk skóla sé að bjóða nemendum haldgóða menntun og undirbúa þá undir frekara nám. Uppeldinu sé best komið á heimilum og skólar eigi helst ekki að vera vettvangur félagslegra úrræða.

Tilfinning mín er að hluta af vanda skólastarfsins megi rekja til þess að fyrrnefnda sjónarmiðið hafi orðið um of ríkjandi.“

Það er alveg hárrétt hjá Páli að tvö sjónarmið í þessa veru hafa verið á lofti í umræðu skólamanna.  Í mínu huga verður menntun ekki aðskilin frá uppeldi og við skólamenn getum ekki ýtt uppeldishlutverkinu frá okkur. Það breytir ekkert ábyrgð og hlutverki foreldra bæði hvað varðar uppeldi og menntun en á þeim hvílir hún fyrst og fremst. Stundum hefur heyrst að skólinn sé að taka uppeldishlutverkið frá foreldrum eða foreldrarnir að varpa því yfir á skólann. Slíkt er alveg út í hött og má auðvitað ekkert gerast. 

Ég held að í þessum sjónarmiðum kristallist hugmyndafræði hins hefðbundna skóla annars vegar og hugmyndafræði um nútímaskóla. Áður snérist skólastarf um að koma vitneskju sem kennarinn bjó yfir til barnanna. Hann kenndi þeim ákveðnar staðreyndir og gerði þau tilbúin fyrir næsta skólatig. Nú er enginn þörf fyrir þetta. Það er hægt að verða sér út um þessa þekkingu allsstaðar og heimili geta alveg eins sinnt þessu með því að stilla barninu upp fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna. Starf kennarans snýst ekki lengur um að fylla upp í sérstök staðreyndahólf í heilum barna. Nú er þörf fyrir skóla sem "menntar" börn í að vera heilsteyptir og góðir einstaklingar með sterka sjálfsmynd og trú á sjálfa sig. Í þeim skóla er  námið í öndvegi og á námsskránni eru vissulega þær námsgreinar sem við þekkjum. En leiðirnar í náminu eiga að mínu mati að vera margar og fjölbreyttar og það eiga ekki allir að þurfa að gera það sama og jafnvel geta markmiðin verið ólík.

Skólinn á ekki að miða nemendur sína við einhvern normal-nemanda og flokka svo hópinn í góða nemendur og lélega. Það er ekki til neitt sem heitir gott barn eða lélegt. Öll börn eru góð og flínk í einhverju og á því á skólavera þeirra að byggja. Við fullorðna fólkið gerum okkur grein fyrir veikleikum okkar og styrkleikum og veljum okkur starf sem við teljum okkur ráða við og höfum jafnvel gaman að. Við yrðum fljótt pirruð ef við mættum í vinnuna og á hverjum degi væru okkur fengin verkefni sem við réðum ekki við. 

Ég er þeirrar skoðunar að það að stuðla að góðum þroska barnanna taki bæði til menntunar og uppeldis og það verði ekki aðskilið. 

Hvernig er skóli sem hugsar aðeins um að kenna? Ég sé fyrir mér að börnin mæti inn í kennslustofu og þar standi kennarinn við töfluna og miðli af visku sinni. Hann tekur nemendur upp og hlýðir þeim yfir og flokkar þá svo í góða og lélega nemendur. Og honum er nokkuð sama um hvernig þeim líður eða hvernig þau hafa það yfirleitt. Ég held að þetta sé sem betur fer ekki til í dag. 

En svo má auðvitað spyrja hvaða merkingu leggja menn í hugtökin - menntun, kennsla, uppeldi? 


Kennarar berjast fyrir betri menntun barna

Páli Vilhjálmssyni, blaðamanni, hefur verið tíðrætt um ýmis mál er varða skóla á bloggsíðu sinni að undanförnu. Af sérviskulegum ástæðum legg ég út frá skrifum hans hér á þessari síðu, fremur en að gera það í athugasemdum hjá honum, enda hættir mér til að hafa athugasemdir mínar langar og oft ekki nema að hluta til tengt efninu.

Í nýjasta pistli sínum segir hann eftirfarandi: 

„Leiðin fyrir kennara til að endurreisa virðingu kennarastarfsins er að gera menntun barna að baráttumáli sínu. Með menntun í forgrunni er hægt að endurskoða ýmsa skýrsluvinnu sem núna er á herðum kennara. Það ber að aðskilja félagslega þjónustu sem hæfilegt þykir að veitt sé innan skóla frá reglulegri kennslu. Alþjóðlegur samanburður á stöðu barna í einstökum námsgreinum gefur færi á að setja sér tiltekin markmið. Kröfur um að kennarar taki meistarapróf eru tilefni til að stokka upp endurmenntunarþáttinn. Fleira þarf að koma til og ættu kennarar manna best að vita hvar skórinn kreppir að.“

Nú er það svo að kennarar starfa við menntun barna. Alla tíð hafa þeir unnið hávaðalaust og af dugnaði að þróun skólastarfs með það fyrir augum að bæta skólastarf börnunum til hagsbóta. Það eru þeir sem hafa barist fyrir því bekkir yrðu fámennari svo að börnin fengju betri menntun. Og þetta hefur verið partur af kjarabaráttu þeirra. Þeir hafa líka barist fyrir einsetningu skólanna sem fyrst og fremst kemur börnunum vel og þau geta fengið lengri skóladag og nýtt besta tíma dagsins til námsins. Þróun skólastarf hefur í sumum tilfellum á undanförnum áratugum verið reiknuð sem kjarabætur til kennara. Það er alveg fráleitt og það er mjög mikilvægt að aðskilja kjarabaráttu og skólaþróun. Bætt aðstaða nemenda til náms eru ekki kjarabætur fyrir kennara. Né heldur eru samninganefndir sveitarfélaga og kennarafélaga    heppilegustu aðilarnir til að möndla um skólaþróun. 

Ég vil líka minna á samtök sem kennarar hafa stofnað til að stuðla að auknu þróunarstarfi og betri skóla. Í fyrra komu um 400 kennarar saman á Selfossi og stofnuðu Samtök áhugafólk um skólaþróun. Miðað við höfðatölu er þar líklega um heimsmet að ræða. Sýnir bullandi áhuga íslenskra kennara og baráttu fyrir betri menntun barnanna. 

Stóra þróunarverkefnið sem kennarar eru að vinna núna til að bæta skólastarfið er að koma á einstaklingsmiðuðu námi. Það er tröllaukið verkefni og flókið og tekur til margra þátta. Það er í raun verkefni sem allt þjóðfélagið verður að koma að og þá ekki síst foreldrar. Þetta er líklega einhver stærsta breyting á skólastarfi sem gerð hefur verið á skólastarfi. Þetta verkefni krefst mikils samstarf og samvinnu innan skólasamfélagsins.  Íslenskir kennarar hafa á undanförnum árum gjörbreytt vinnulagi sínu og samvinna meðal þeirra við undirbúning og skipulag kennslu er nú miklu meira en áður var. Hér í Finnlandi hef ég hitt skólamenn sem telja vinnulag kennara á Íslandi til mikillar fyrirmyndar og dæmi eru um að skólar hér séu að reyna að taka það upp. 

Ég vil líka vara við að menn einblíni um of á alþjóðlegar samanburðarkannanir. Ísland hefur reyndar komið vel út úr þeim. Rétt er að vekja athygli á því að í þeim eru að jafnaði tekin meðaltöl og þau borin saman. Einstaklingarnir á bak við meðaltölin skipta máli, ekki bara meðaltal þeirra, heldur hver og einn. Við eigum að byggja okkar skólakerfi upp þannig að hvert einasta barn fái að njóta sín. Ekki bara þau sem eiga auðvelt með hefðbundið bóknám.

Eins og annað er kennaramenntun í þróun og þess má vænta að innan skamms verði kennaranámið lengt á Íslandi. Ég held meira að segja að undirbúningur að því sé hafinn. En ég vil líka vekja athygli á því að kennarar eru að ég hygg flestum stéttum duglegri við að bæta við menntun sína. Fjöldi kennara er í fjarnámi jafnframt sinni vinnu, auk þess að sækja reglulega námskeið til að efla sig í starfi. Allt til að bæta menntun barnanna.  Þeir eru nefnilega hörðustu baráttumenn fyrir betri menntun á Íslandi. Í þá sveit er rúm fyrir fleiri vaska liðsmenn úr röðum foreldra og annarra. 


Íslenski skólinn í klemmu

Athugasemd eða öllu heldur innlegg Arnars Ævarssonar við pistlinum hér á undan er gott og þarft og við ég þakka honum það. Hann beinir kastljósinu frá umbúðum skólastarfsins og að hinu innra starfi. Það er einmitt það sem við skólafólk og foreldrar þurfum að ræða saman um og komast að góðri niðurstöðu. Ég leyfi mér að birta hér nokkrar glefsur frá honum og viðbrögð mín við þeim.

Arnar segir að staða grunnskóla hér á landi sé í heild þokkaleg en það er ekki nógu gott, við eigum að geta mun betur en til þess þarf skólinn að fara vera með. Jafnframt segir hann að þróun sé ótrúlega hægfara, vinnubrögð tilviljanakennd og skortur á fagmannlegum vinnubrögðum séu allt of algeng.  Hann tekur nokkur dæmi máli sínu til stuðnings:

  • Kennsluaðferðir oft í engum takti við nemendur og kröfur þeirra.
  • Tilviljanakennd vinnubrögð. Virðast lítið faglega ígrunduð a.m.k. þegar á reynir.
  • Dæmi um mjög slæleg vinnubrögð þegar málefni nemenda sem ekki finna sig í skólanum.
  • Drengir ekki að finna sig í skólanum , en tilviljanakennd vinnubrögð hjá einum og einum skólastjóra. Engin heildarstefan í gangi.
  • All of morg dæmi um herfilega stöðu nemanda í fjöldamörg ár en ekkert er gert fyrr en kannski í 9. eða 10. bekk
  • Leitarstarf að nemendum sem líður illa í skólanum er ekkert og mörg dæmi um að ef enmandi er ekki að rekast á reglur skólans þá getur hann silgt í gegnum skólann án þess að nokkuð sé gert.
  • Kennsluaðferðir á sumu námsefni virðast lítið sem ekkert ígrundaðar m.t.t. nemenda þ.e.a.s. mismunandi þarfir hvers og eins 

Hann bendir í lokin á að meirihluti nemenda sé að koma þokkalega út en hinn hópurinn sé of stór og lítið virðist gert til að takast á við það.

Ég get verið sammála mörgu sem Arnar segir og hef reyndar bæði í ræðu og riti vakið athygli á stöðu drengja og stúlkna sem eiga undir högg að sækja í skólakerfinu.  Menntastefna á Íslandi setur þessi börn til hliðar. Strax 9 ára gömul eru þau látin þreyta samræmd próf, þar sem öll börn í árganginum eru mæld með sömu mælistiku bóknámsins. Aðrir styrkleikar nemenda skipta ekki máli. Ég hef sjálfur séð bæði stráka og stelpur brotna saman þegar niðurstöður samræmda prófins berast þeim. Það er dapurlegur dómur á fjórða ári af tíu í í skyldunámi og erfitt að standa undir honum. Staðreyndin er sú að þessi börn eiga erfitt í náminu alla skólagönguna og þau eru minnt með reglulegum hætti af stjórnvöldum á vangetu sína í bóknáminu. Menntayfirvöld, bæði ríkið og sum sveitarfélög allavega, gera mikið með samræmdu prófin og líta á skólastarfið sem keppni milli skóla og sá skóli vinnur sem best kemur út úr prófunu. Áherslan þar á meðaltalstölur en ekki einstaklingana á bak við tölurnar. Yfirvöld eru þannig að þrýsta skólum til að vinna að því að koma vel út úr samræmdum prófum, en eins og kunnugt er þá  eru þau bara í bóknámsgreinum. Samræmdu prófin eru óþörf í grunnskólanum og gera að mínu viti meira ógagn en gagn. Finnar eru t.d. ekki með samræmd próf af þessu tagi.

Arnar nefnir einnig réttilega þörfina á að skólar komi til móts við mismunandi þarfir einstaklinganna bæði með fjölbreyttum kennsluaðferðum og námsframboði. Þessu er ég hjartanlega sammála og tel þetta brýnasta verkefnið í skólamálum í dag. Þetta er sú leið sem við getum farið til að útskrifa alla nemendur með bros á vör og trú á sjálfa sig að eftir tíu ár í grunnskóla.

Á Íslandi hefur verið stigið stórt skref í þessa átt og Reykjavíkurborg setti t.d. í menntastefnu sína árið 2000 eða 2001 að stefnt skyldi markvisst að einstaklingsmiðuðu námi í skólum borgarinnar. Síðan hafa önnur sveitarfélög fylgt í kjölfarið þannig að ekki vantar stefnuna. Sum sveitarfélög og skólar hafa fylgt þessu eftir með markvissu námskeiðahaldi fyrir kennara og skólastjórnendur og vissulega má nú finna skóla á Íslandi sem eru komnir langt í þessu. En breytingar af þessu tagi taka tíma, því ekki þurfa kennarar aðeins að breyta vinnubrögðum sínum, foreldrar verða einnig að vera sáttir við hina breyttu kennsluhætti sem og nemendur. Námsefnisgerð þarf einnig að taka mið af þessu. Þá ekki síður menntayfirvöld, en samræmdu prófin eru t.d. algjörlega á skjön við hugmyndir um einstaklingsmiðað nám.Börnin í skólanum eru ekki samræmd frekar en við fullorðna fólkið. 

Af þessu má sjá að skólinn íslenski er í ákveðinni klemmu. Annars vegar er krafan um samræminguna og bóknámsáherslurnar og hins vegar krafan um að koma til móts við þarfir hvers og eins. Þetta fer ekki í öllu saman og hefur gert kennurum og skólastjórnendum erfitt fyrir. Í hvora áttina á að fara? 


Af hverju bera Finnar mikla virðingu fyrir kennarastarfinu?

Enn einu sinni lenda íslenskir kennarar í þrætum við samfélagið um starf sitt. Enn einu sinni koma fram ásakanir á hendur þeim um að þeir sinni ekki starfinu sínu. Enn einu sinni hljómar söngurinn um hið langa sumarfrí og fjölda frídaga um veturinn. Og enn einu sinni fullyrða menn að kennarar séu búnir í vinnunni upp úr hádegi.
Ekki veit ég frekar en nokkur annar hversu stór sá hópur er sem vegur að kennurum með þessum hætti. En hann er hávær og hefur mikil áhrif. Málflutningur hans sem er byggður á þekkingarleysi, fordómum og þeirri tilhneigingu að vita betur en aðrir (besserwisserar), jafnvel betur en kennarar um kennarastarfið. Málflutningur þessi skaðar ímynd kennarastarfsins og dregur úr þeirri virðingu sem það nýtur í samfélaginu.

Forystumenn kennara telja sig ævinlega knúna til að réttlæta vinnutíma sinn fyrir almenningi þegar þeir eiga í kjaraviðræðum eða kjaradeilum. Með þeim hætti er fókusnum snúið frá því sem máli skiptir, laununum, og yfir á vinnutímann. Þá koma ofnagreindir besserwisserar upp úr skotgröfunum og láta skotin dynja og kennarar fara í vörn. Aðalatriði verða aukaatriði og aukaatriði aðalatriði. Fólk skilur ekki almennilega þessa vinnutímaskilgreiningu og hendir jafnvel gaman að henni. Allt þetta hefur neikvæð áhrif á virðingu kennarastarfsins.

Finnar telja þá virðingu sem þeir bera fyrir kennarastarfinu eina aðalástæðuna fyrir velgengni finnskra skóla í alþjóðlegum könnunum. Þó eru finnskir kennarar á engan hátt frábrugðnir þeim íslensku og vinnutímaskilgreining þeirra er jafnvel enn skrýtnari. Þeir hafa sömu kennsluskyldu og íslenskir kennarar, sama tíma til undirbúnings, kenna sama dagafjölda á ári en geta gengið út úr skólunum um leið og þeir ljúka kennslu á daginn eða þegar skóla hefur verið slitið á sumrin. Þeir þurfa ekki frekar en þeir vilja að mæta fyrir skólasetningu í ágúst.

Af hverju njóta þeir þá meiri virðingar? E.t.v. vegna þess að litið er á menntun sem auðlind sem samfélagið byggir á. Hún sé nauðsynleg til þess að tryggja lífsgæði. Hátækni og nýsköpun er á háum stalli hér í daglegu tali. Virðingin er líka inngróin í menninguna. Finnar þurftu að berjast fyrir sjálfstæði sínu og þar skipti menntunin miklu máli. Góð finnsk menntun býr til sterka finnska þjóð. Þeir t.d. eru í forystu í heiminum hvað kennaramenntun varðar og ekki er þverfótað hér fyrir útlendingum (eins og mér) sem eru að kynna sér finnskt skólastarf.

Í sjálfu sér ætti þetta að vera svipað hjá okkur á Íslandi. Við háðum sjálfstæðisbaráttu á sama tíma og þeir. Virðing fyrir skólastarfi á að vera inngróin í menninguna. Ég veit ekki hvað veldur því að svo er ekki. Kannski þessi það reddast - hugsunarháttur. Álver í dag og möndl með peninga út um allar jarðir er málið. Nóg að hafa einhverja sem kunna sæmilega skil á debit og kredit.

Skólarnir á Íslandi eru með þeim bestu í heimi. Við eigum alla möguleika á að vera í fararbroddi í skólamálum og vera öðrum þjóðum fyrirmynd. Við eigum að leggja kapp okkar á að byggja upp skóla þar sem hvert einasta barn fær að njóta styrkleika sinna og útskrifast með sterka sjálfsmynd.


Umræða um starf kennara á blogginu

Í morgun datt ég inn í umræðu um starf kennara hér á blogginu.Mér þótti bloggaranum skorta upplýsingar sem ég þóttist búa yfir og vatt mér því inn í umræðuna. Umræðan varð svo mikil en ég verð að segja að menn mættu alveg íhuga aðeins betur það sem þeir láta út úr sér á vefnum um menn og málefni. En innlegg mín voru mörg og nokkuð löng. Ég hef ákveðið að endurbirta þau hér og fyrirsagnir eiga við um helstu umfjöllunarefni.

1. innlegg - starfsdagar og sumarfrí

Sæll Páll

Það gætir aðeins misskilnings með starfsdagana hjá þér. Þeir eru ekki ætlaðir til endurmenntunar. Þeir eru notaðir í skólum til skipulagsstarfa, til þess að meta starf skólans og gera áætlanir til betrumbóta. Á hverjum vetri hafa skólar möguleika á 5 starfsdögum og nú er það þannig í allmörgum skólum setja menn gjarnan tvo starfsdaga inn á lögbundna frídaga nemenda, s.s. í jólaríi og páskafríi. Þá koma þrír starfsdagar á aðra daga. 

Þá er líka rétt að vekja athygli þína á því að hvort sem starfsdagar eru notaðir eða ekki, þá eiga nemendur alltaf að fá jafnmarga daga í skóla. Dæmi eru um að skólar nota ekki starfsdagana en þá hætta þeir sem því nemur fyrr á vorin.

Endurmenntun eiga kennarar að sinna utan skólatíma á starfstíma skóla eða á sumrin eftir að bundnum störfum þeirra lýkur í skóla.

Vinna á starfsdögum er skipulögð af skólastjórnendum. Sjálfur hef ég starfað sem skólastjóri um árabil og tel það mikilvægt að kennarar og allt starfsfólk skóla hafi tíma til þess að móta stefnu og skipulag til heilla fyrir skólann og þar með nemendur.  

Þá vil ég einnig leiðrétta það sem þú segir um sumarfrí kennara að það sé tæplega 3 mánuðir. Kennurum er skylt að starfa í skólanum að ýmsu sem skólastjórnendur ákveða 8 daga  eftir skólaslit og fyrir skólasetningu. Það þýðir að ef skólaslit eru 10. júní þá vinna þeir áfram í 3 daga og eru þá búnir seinnipart 13. júní. Þeir koma svo aftur til starfa 15. ágúst.  Margir vinna lengur en þetta við að ganga frá gögnum og kennslustofunni. Einnig er í júní og ágúst boðið upp á námskeið sem kennarar geta sótt. Þannig að sumarfrí kennara lítur all nokkuð öðruvísi út en þú segir.  

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 07:18

2. innlegg - Hvað er gert á starfsdögum, af hverju eru þeir gjarnan á föstudögum og mánudögum? 

Sæll Guðmundur

Það að setja starfsdaga á mánudag eða föstudag er gert vegna eindreginna óska frá foreldrum. Þannig að þeir eigi möguleika á að fara t.d. í sumarbústað með börnum sínum eða eitthvað slík.

Starfsdagar í skólum eru ekki frídagar kennara. Þeir eru þar að vinna eins og ég gat um í fyrri athugasemd undir stjórn skólastjórnenda að verkum sem teljast m.t.t. nútíma stjórnunarhátta eðlileg í fyrirtækjum og stofnunum - þ.e. að leggja mat á starfið, móta stefnu og gera áætlanir. Á þeim tíma sem börnin eru í skólanum er þetta óframkvæmanlegt. Allt eru þetta störf sem skólum ber að sinna og þau leiða til bætts skólastarfs. 

Vissulega vilja kennarar breyta og einfalda kjarasamning sinn en það hefur því miður ekki náðst sátt um það. Það er auðvitað það sem menn eiga að einhenda sér í núna. Ég þekki mjög marga kennara sem vilja skýrari mörk vinnutíma og hætta þessari mínútutalningu sem er arfur fortíðar.

Nú eru hins vegar ekki í gangi viðræður um breyttan kjarasamning, heldur túlkun á ákvæðum síðasta samnings. Þær viðræður snúast um hversu mikið á að hækka launin núna skv. þessum kjarasamningi. Aðilar hafa ekki komist að samkomulagi þar um og því er þessi deila. 

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 11:11

3. innlegg - Kjarabarátta kennara

Heill og sæll Ólafur

Ég er þess fullviss að langflestir kennarar ganga til sinna starfa með bros á vör á hverjum degi. Skemmtilegri vinnustaðir en skólar eru vandfundnir og sú umbun sem fæst frá þakklátum nemendum er dýrmæt.

Því miður hafa kennarar lent í harðari kjaradeilum en flestar aðrar stéttir og það hefur sett mark sitt á líðan þeirra í starfi. Að þeim er vegið með ýmsum hætti, s.s. að þeir skili ekki ársverki til samanburðar við aðra, þeir víki sér undan störfum sínum (t.d. séu í fríi á starfsdögum), sinni ekki endurmenntun o.fl. mætti telja. Þeir hafa svo ekki verið ofhaldnir af launum sínum og það eitt að vera með háskólapróf og skila 150 þús. kr. mánaðarlega í heimilisbókhaldið hefur áhrif á sjálfsmyndina. 

Kennara hafa í gegnum tíðina barist fyrir betri skóla fyrir nemendur. Þeir börðust fyrir einsetnum skóla, færri nemendum í bekk, minni kennsluskyldu o.s.frv. Fyrir þetta fóru þeir jafnvel í verkföll. Þetta skilaði þeim ekki hærri launum og ekki minni vinnu.  En þetta skilaði nemendum aftur á móti betri kennslu, meiri umhyggju og betra umhverfi. 

Því miður hafa kjaradeilur kennara oft snúist um annað en að hækka laun kennara. Auðvitað á að negla kennaralaunin einhversstaðar og sveitarfélögin verða þá bara að minnka þjónustuna við nemendur ef þau skortir pening. Þeir fá þá minni kennslu væntanlega.

Ég er hér Finnlandi um þessar mundir og hér byrja börn t.d. í skóla 7 ára, bekkir á yngri stigum eru með hátt í 30 nemendum, kennsla í list- og verkgreinum hefst ekki fyrr en um 10 ára aldurinn o.s.frv. Reyndar eru kennara á verri launum en á Íslandi. 

Á síðustu áratugum hefur býrókratisminn í kringum skólahald stóraukist og ég veit ekki hvort það er skólastarfi endilega til góðs. Skólar eiga að móta stefnu, koma sér saman um flóknar skólanámskrár, stunda reglulegt sjálfsmat, standa fyrir þróunarverkefnum svo eitthvað sé nefnt. Það eiga að vera starfandi allrahanda teymi sem eiga að sinna ýmsum velferðarmálum nemenda. Það er í þetta allt sem starfsdagarnir eru nýttir m.a.

Í venjulegum grunnskóla er verið að kenna til þrjú, fjögur á daginn og ekki tími til vinnu af þessu tagi eftir það. 

Ég vil að við einfaldlega beinum áherslunum í starfi kennaranna að skólastofunni. Starf þeirra snúist um kennslu og undirbúning. Auk þess þarf að gefa hverjum og einum skóla meira frjálsræði í hvernig þeir skipuleggja starf sitt og vinnu kennara. Ég hef miklu meiri trú á að það færi okkur betri lausn en einkaskólar sem sumir telja góða lausn. Ef að foreldrar vilja borga meira í skólastarfið, er eins hægt að gera það í gegnum skattakerfið heldur en að búa til sérstaka skóla sem aðeins efnafólk getur sent börnin sín í. 

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 13:03

4. innlegg - Fjölgun kvenna, frídagar og virðing kennarastarfsins

Sælir Ófeigur og Reynir

Ég vil nú sýna ykkur þá virðingu að svara því sem þið segið þarna, þó mörgum þyki svona innlegg varla svaraverð. Það er mjög algengt á vinnustöðum að störfum sé breytt þegar aldurinn færist yfir. Svo hefur einnig verið í skólum og nú geta kennarar valið um að fá létt af sér svolítilli kennslu og unnið þá önnur verk í staðinn, nú eða haldið áfram í fullri kennslu óski þeir þess. Í engum tilfellum minnkar vinnuskyldan nema þá að menn minnki við sig vinnu og fái þá lægri laun. Það er ekkert óeðlilegt við þetta og í raun er þetta fyrirkomulag sem þekkist víða á vinnustöðum.

Niðurlægjandi tal um konur og að þær hafi ekki viljað hærri laun heldur fleiri frí þegar þeim fjölgaði í kennarastétt er algjörlega úr lausu lofti gripið og á sér enga stoð í raunveruleikanum. Auk þess hefur skólaárið lengst og skóladögum fjölgað. Frídögum hefur fækkað. Þeir sem eldri eru en tvævetur muna að lögbundin frí voru á 1. des. og öskudag auk þess sem alltaf var gefið svokallað mánaðarfrí í þeim mánuðum sem ekki voru önnur frí. Á þessu dögum mættu kennarar þó í vinnu. Öllum þessu frídögum hefur fækkað og nú eru eftir þessir svokölluðu starfsdagar sem almennt eru þrír utan lögbundinna frídaga nemenda. Stundum ákveða kennarar m.a.s. að fækka þessu starfsdögum með því að vinna í staðinn á kvöldin eða um helgar.  

Fullyrðingar um að kennarar vinni ekki frá 8 til 16 í skólunum eru algjörlega ósannar sem og að þeir skili ekki sama dagafjölda í vinnu og aðrir.  Ég hef  starfað sem skólastjóri í stórum skólum á höfuðborgarsvæði á annan áratug og á þeim tíma hefur vinnuaðstaða kennara í skólum breyst mjög til hins betra. Áður var mjög þröngt um og oft ekki annað afdrep til undirbúnings og úrvinnslu kennslu en kaffistofan, auk þess sem tölvubúnaður fyrir kennara var af mjög skornum skammti í skólunum. Þá töldu menn oft betra að vinna þessa vinnu heima, þar sem þeir höfðu komið sér upp vinnuaðstöðu og keypt sér búnað til að sinna þessari vinnu.  Nú vilja flestir kennarar ljúka undirbúningsvinnunni á vinnustaðnum og það er oft setið lengur en til 16. Stundum er komið aftur um kvöldið eða á laugardögum. 

Ég hef gefið mér góðan tíma til að taka þátt í þessari umræðu í dag og vona að þeim tima hafi verið vel varið. Ég vona að menn séu nokkru upplýstari og innlegg mín hafi svarað einhverjum spurningum. Bara til upplýsingar fyrir hinn óskráða ófeig þá er ég sem stendur í leyfi frá störfum og er að nýta mér það til að fara rækilega ofan í skólastarf á Íslandi og víðar. Ég er t.d. í Finnlandi um þessar mundir en finnskir nemendur hafa staðið sig afar vel í alþjóðlegum könnunum á undanförnum árum. Eina helstu ástæðuna fyrir velgengni sinni telja Finnar að sé hin mikla virðing sem borin er fyrir kennarastarfinu í þjóðfélaginu.

Ég mun nú ekki ræða þetta mál frekar hér en vísa á bloggið mitt ef menn vilja eiga frekari viðræðu við mig um skólamál.

Með kveðjum góðum - Hafsteinn 

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 21:52

 

 

 

 


Þegar klaufabárðarnir tóku að sér að stjórna bæ

Einu sinni var stundum skotið inn á milli dagskráratriða í sjónvarpinu litlum þáttum af leirkörlum sem kallaðir voru klaufabárðarnir. Mig minnir að í einum þættinum hafi þeir setið í meirihluta í bæjarstjórn í bæ nokkrum.

Hvert málið rak annað þar sem klaufabárðarnir klúðruðu málunum. Þeir t.d. óðu án nokkurs leyfis yfir dýrmætt skógræktarland til þess að koma fyrir rörum sem áttu að flytja kalt gjafavatn til íbúa í næsta bæ við þann sem þeir stjórnuðu.

Já, það var nefnilega eitt klúðrið hjá þeim rétt fyrir kosningar að bjóða bæjarstjórn nágrannabæjarins niðurgreitt vatn næstu áratugina. Ekki vegna þess að nágrannabærinn væri svona fátækur eða íbúar hans illa haldnir.

Nei en blessaðir klaufabárðarnir höfðu í flumbrugangi sínum lofað hestamönnum aðstöðu og meira að segja hestaakademíu inn á vatnsverndarsvæði nágrannabæjarins.

Það var nefnilega út af því að klaufarnir ruku til án þess að hugsa málin og keyptu fjármálabraskara út úr klúðri sem þeir voru búnir að koma sér í með kaupum á hesthúsum sem hestamennirnir áttu og voru í bænum.

Braskararnir voru búnir með peninginn og enginn vildi lána þeim til að kaupa fleiri hesthús, en þeir ætluðu að græða svo mikið á því. Og nú voru þeir í miklum vandræðum, blessaðir fjármálabraskararnir.

En klaufabárðarnir fréttu þetta og vorkenndu bröskurunum svo mikið að þeir buðust til að láta bæinn sem þeir stjórnuðu kaupa öll hesthúsin sem þeir höfðu keypt á miklu hærra verði en þeir höfðu sjálfir borgað fyrir þau.

Braskararnir voru glaðir af því að nú höfðu þeir grætt mörg hundruð milljónir á því að skemma fyrir hestamönnunum. Nú gátu þeir farið með peninginn eitthvert annað og gert einhvern óskunda þar.

Hestamennirnir voru reiðir því að braskaranir voru að eyðileggja félagið þeirra. En klaufabárðarnir keyptu bara líka öll hestuhúsin af þeim á sama verði og þeir borgðuðu bröskurunum og lofuðu líka landi undir ný hesthús og hestaakademíu.

En svo átti nágrannabærinn að fara að fá vatnið. Þá varð ná í vatnið. En það var flókið vegna þess að bóndi einn átti land sem þeir þurftu að fara yfir. Hann vildi það ekki og því þurftu þeir að láta bæinn kaupa allt landið af honum.

Og hann fékk marga marga milljarða og mátti svo selja lóðir af landinu sem hann var búinn að selja bænum og ráða svolítið yfir fólkinu sem ætlaði að búa þar.

Og svo byrjuðu þeir að grafa og koma rörunum oní jörðina því tíminn var orðinn naumur. Þeir höfðu nefnilega lofað vatninu fyrir ákveðinn tíma og ef það tækist ekki að ná því upp úr jörðinni úr borholum bæjarins varð að kaupa vatnið af vatnssölufyrirtæki á miklu hærra verði.

Æ, en svo var allt í einu þetta skógræktarland. Og klaufabárðarnir ákváðu bara að vaða yfir það. Þetta voru hvort eð er bara ómerkileg tré.

En það fattaðist og þeir máttu þetta ekki. Löggan kom og allt.

Og þetta varð til þess að klaufabárðarnir voru látnir hætta að stjórna bænum. Enda allt í klúðri.

Og þannig endaði þessi þáttur um klaufabárðana.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband