Umræða um starf kennara á blogginu

Í morgun datt ég inn í umræðu um starf kennara hér á blogginu.Mér þótti bloggaranum skorta upplýsingar sem ég þóttist búa yfir og vatt mér því inn í umræðuna. Umræðan varð svo mikil en ég verð að segja að menn mættu alveg íhuga aðeins betur það sem þeir láta út úr sér á vefnum um menn og málefni. En innlegg mín voru mörg og nokkuð löng. Ég hef ákveðið að endurbirta þau hér og fyrirsagnir eiga við um helstu umfjöllunarefni.

1. innlegg - starfsdagar og sumarfrí

Sæll Páll

Það gætir aðeins misskilnings með starfsdagana hjá þér. Þeir eru ekki ætlaðir til endurmenntunar. Þeir eru notaðir í skólum til skipulagsstarfa, til þess að meta starf skólans og gera áætlanir til betrumbóta. Á hverjum vetri hafa skólar möguleika á 5 starfsdögum og nú er það þannig í allmörgum skólum setja menn gjarnan tvo starfsdaga inn á lögbundna frídaga nemenda, s.s. í jólaríi og páskafríi. Þá koma þrír starfsdagar á aðra daga. 

Þá er líka rétt að vekja athygli þína á því að hvort sem starfsdagar eru notaðir eða ekki, þá eiga nemendur alltaf að fá jafnmarga daga í skóla. Dæmi eru um að skólar nota ekki starfsdagana en þá hætta þeir sem því nemur fyrr á vorin.

Endurmenntun eiga kennarar að sinna utan skólatíma á starfstíma skóla eða á sumrin eftir að bundnum störfum þeirra lýkur í skóla.

Vinna á starfsdögum er skipulögð af skólastjórnendum. Sjálfur hef ég starfað sem skólastjóri um árabil og tel það mikilvægt að kennarar og allt starfsfólk skóla hafi tíma til þess að móta stefnu og skipulag til heilla fyrir skólann og þar með nemendur.  

Þá vil ég einnig leiðrétta það sem þú segir um sumarfrí kennara að það sé tæplega 3 mánuðir. Kennurum er skylt að starfa í skólanum að ýmsu sem skólastjórnendur ákveða 8 daga  eftir skólaslit og fyrir skólasetningu. Það þýðir að ef skólaslit eru 10. júní þá vinna þeir áfram í 3 daga og eru þá búnir seinnipart 13. júní. Þeir koma svo aftur til starfa 15. ágúst.  Margir vinna lengur en þetta við að ganga frá gögnum og kennslustofunni. Einnig er í júní og ágúst boðið upp á námskeið sem kennarar geta sótt. Þannig að sumarfrí kennara lítur all nokkuð öðruvísi út en þú segir.  

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 07:18

2. innlegg - Hvað er gert á starfsdögum, af hverju eru þeir gjarnan á föstudögum og mánudögum? 

Sæll Guðmundur

Það að setja starfsdaga á mánudag eða föstudag er gert vegna eindreginna óska frá foreldrum. Þannig að þeir eigi möguleika á að fara t.d. í sumarbústað með börnum sínum eða eitthvað slík.

Starfsdagar í skólum eru ekki frídagar kennara. Þeir eru þar að vinna eins og ég gat um í fyrri athugasemd undir stjórn skólastjórnenda að verkum sem teljast m.t.t. nútíma stjórnunarhátta eðlileg í fyrirtækjum og stofnunum - þ.e. að leggja mat á starfið, móta stefnu og gera áætlanir. Á þeim tíma sem börnin eru í skólanum er þetta óframkvæmanlegt. Allt eru þetta störf sem skólum ber að sinna og þau leiða til bætts skólastarfs. 

Vissulega vilja kennarar breyta og einfalda kjarasamning sinn en það hefur því miður ekki náðst sátt um það. Það er auðvitað það sem menn eiga að einhenda sér í núna. Ég þekki mjög marga kennara sem vilja skýrari mörk vinnutíma og hætta þessari mínútutalningu sem er arfur fortíðar.

Nú eru hins vegar ekki í gangi viðræður um breyttan kjarasamning, heldur túlkun á ákvæðum síðasta samnings. Þær viðræður snúast um hversu mikið á að hækka launin núna skv. þessum kjarasamningi. Aðilar hafa ekki komist að samkomulagi þar um og því er þessi deila. 

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 11:11

3. innlegg - Kjarabarátta kennara

Heill og sæll Ólafur

Ég er þess fullviss að langflestir kennarar ganga til sinna starfa með bros á vör á hverjum degi. Skemmtilegri vinnustaðir en skólar eru vandfundnir og sú umbun sem fæst frá þakklátum nemendum er dýrmæt.

Því miður hafa kennarar lent í harðari kjaradeilum en flestar aðrar stéttir og það hefur sett mark sitt á líðan þeirra í starfi. Að þeim er vegið með ýmsum hætti, s.s. að þeir skili ekki ársverki til samanburðar við aðra, þeir víki sér undan störfum sínum (t.d. séu í fríi á starfsdögum), sinni ekki endurmenntun o.fl. mætti telja. Þeir hafa svo ekki verið ofhaldnir af launum sínum og það eitt að vera með háskólapróf og skila 150 þús. kr. mánaðarlega í heimilisbókhaldið hefur áhrif á sjálfsmyndina. 

Kennara hafa í gegnum tíðina barist fyrir betri skóla fyrir nemendur. Þeir börðust fyrir einsetnum skóla, færri nemendum í bekk, minni kennsluskyldu o.s.frv. Fyrir þetta fóru þeir jafnvel í verkföll. Þetta skilaði þeim ekki hærri launum og ekki minni vinnu.  En þetta skilaði nemendum aftur á móti betri kennslu, meiri umhyggju og betra umhverfi. 

Því miður hafa kjaradeilur kennara oft snúist um annað en að hækka laun kennara. Auðvitað á að negla kennaralaunin einhversstaðar og sveitarfélögin verða þá bara að minnka þjónustuna við nemendur ef þau skortir pening. Þeir fá þá minni kennslu væntanlega.

Ég er hér Finnlandi um þessar mundir og hér byrja börn t.d. í skóla 7 ára, bekkir á yngri stigum eru með hátt í 30 nemendum, kennsla í list- og verkgreinum hefst ekki fyrr en um 10 ára aldurinn o.s.frv. Reyndar eru kennara á verri launum en á Íslandi. 

Á síðustu áratugum hefur býrókratisminn í kringum skólahald stóraukist og ég veit ekki hvort það er skólastarfi endilega til góðs. Skólar eiga að móta stefnu, koma sér saman um flóknar skólanámskrár, stunda reglulegt sjálfsmat, standa fyrir þróunarverkefnum svo eitthvað sé nefnt. Það eiga að vera starfandi allrahanda teymi sem eiga að sinna ýmsum velferðarmálum nemenda. Það er í þetta allt sem starfsdagarnir eru nýttir m.a.

Í venjulegum grunnskóla er verið að kenna til þrjú, fjögur á daginn og ekki tími til vinnu af þessu tagi eftir það. 

Ég vil að við einfaldlega beinum áherslunum í starfi kennaranna að skólastofunni. Starf þeirra snúist um kennslu og undirbúning. Auk þess þarf að gefa hverjum og einum skóla meira frjálsræði í hvernig þeir skipuleggja starf sitt og vinnu kennara. Ég hef miklu meiri trú á að það færi okkur betri lausn en einkaskólar sem sumir telja góða lausn. Ef að foreldrar vilja borga meira í skólastarfið, er eins hægt að gera það í gegnum skattakerfið heldur en að búa til sérstaka skóla sem aðeins efnafólk getur sent börnin sín í. 

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 13:03

4. innlegg - Fjölgun kvenna, frídagar og virðing kennarastarfsins

Sælir Ófeigur og Reynir

Ég vil nú sýna ykkur þá virðingu að svara því sem þið segið þarna, þó mörgum þyki svona innlegg varla svaraverð. Það er mjög algengt á vinnustöðum að störfum sé breytt þegar aldurinn færist yfir. Svo hefur einnig verið í skólum og nú geta kennarar valið um að fá létt af sér svolítilli kennslu og unnið þá önnur verk í staðinn, nú eða haldið áfram í fullri kennslu óski þeir þess. Í engum tilfellum minnkar vinnuskyldan nema þá að menn minnki við sig vinnu og fái þá lægri laun. Það er ekkert óeðlilegt við þetta og í raun er þetta fyrirkomulag sem þekkist víða á vinnustöðum.

Niðurlægjandi tal um konur og að þær hafi ekki viljað hærri laun heldur fleiri frí þegar þeim fjölgaði í kennarastétt er algjörlega úr lausu lofti gripið og á sér enga stoð í raunveruleikanum. Auk þess hefur skólaárið lengst og skóladögum fjölgað. Frídögum hefur fækkað. Þeir sem eldri eru en tvævetur muna að lögbundin frí voru á 1. des. og öskudag auk þess sem alltaf var gefið svokallað mánaðarfrí í þeim mánuðum sem ekki voru önnur frí. Á þessu dögum mættu kennarar þó í vinnu. Öllum þessu frídögum hefur fækkað og nú eru eftir þessir svokölluðu starfsdagar sem almennt eru þrír utan lögbundinna frídaga nemenda. Stundum ákveða kennarar m.a.s. að fækka þessu starfsdögum með því að vinna í staðinn á kvöldin eða um helgar.  

Fullyrðingar um að kennarar vinni ekki frá 8 til 16 í skólunum eru algjörlega ósannar sem og að þeir skili ekki sama dagafjölda í vinnu og aðrir.  Ég hef  starfað sem skólastjóri í stórum skólum á höfuðborgarsvæði á annan áratug og á þeim tíma hefur vinnuaðstaða kennara í skólum breyst mjög til hins betra. Áður var mjög þröngt um og oft ekki annað afdrep til undirbúnings og úrvinnslu kennslu en kaffistofan, auk þess sem tölvubúnaður fyrir kennara var af mjög skornum skammti í skólunum. Þá töldu menn oft betra að vinna þessa vinnu heima, þar sem þeir höfðu komið sér upp vinnuaðstöðu og keypt sér búnað til að sinna þessari vinnu.  Nú vilja flestir kennarar ljúka undirbúningsvinnunni á vinnustaðnum og það er oft setið lengur en til 16. Stundum er komið aftur um kvöldið eða á laugardögum. 

Ég hef gefið mér góðan tíma til að taka þátt í þessari umræðu í dag og vona að þeim tima hafi verið vel varið. Ég vona að menn séu nokkru upplýstari og innlegg mín hafi svarað einhverjum spurningum. Bara til upplýsingar fyrir hinn óskráða ófeig þá er ég sem stendur í leyfi frá störfum og er að nýta mér það til að fara rækilega ofan í skólastarf á Íslandi og víðar. Ég er t.d. í Finnlandi um þessar mundir en finnskir nemendur hafa staðið sig afar vel í alþjóðlegum könnunum á undanförnum árum. Eina helstu ástæðuna fyrir velgengni sinni telja Finnar að sé hin mikla virðing sem borin er fyrir kennarastarfinu í þjóðfélaginu.

Ég mun nú ekki ræða þetta mál frekar hér en vísa á bloggið mitt ef menn vilja eiga frekari viðræðu við mig um skólamál.

Með kveðjum góðum - Hafsteinn 

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 21:52

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Elvar Þórólfsson

Snilld. Þú slærð sömu fluguna margoft í sama höfuðið með þessum pistli Hafsteinn. Meitlað og vel útfært.  - kv. Sig. Elvar

Sigurður Elvar Þórólfsson, 20.2.2007 kl. 22:18

2 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Kannski hún gefi þá upp öndina. Hún er búin að pirra ansi lengi. Kannski ekki meitlað en nóg af efni

Hafsteinn Karlsson, 20.2.2007 kl. 22:32

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Frábær skrif hjá þér Hafsteinn, og gaman að fylgjast með ævintýrum þínum í Finnlandi.

Kona á tvítugsaldri  menntaði sig til kennara og hóf störf haustið 2006, en sér ekki fram á að geta séð fyrir sér og barni sínu (einstæð móðir) og minntist á að eftir skatt fengi hún undir kr. 100.000,- í laun útborgað á mánuði. Hún er ung og með mikinn eldmóð, en virðist ekki hafa áttað sig á að 100% starf sé ekki nóg til að tryggja góð laun. Hún hefur "einungis" lokið þriggja ára námi frá KHÍ og síðan helming af mastersgráðu erlendis. Hún hefur sagt upp störfum sem kennari, en ekki aðeins vegna lágra launa; heldur vegna þess hversu erfitt er að stýra heilum bekk af nemendum farsællega og þeirri vanvirðingu sem henni finnst kennarastéttin verða fyrir á Íslandi. Ég held að þessi mál muni ekki snúast til betri vegar að sjálfu sér. Áhugavert væri að ræða möguleikana í stöðinni. Hvað er hægt að gera til að bæta þetta á Íslandi? Hafa Finnar einhvern tíma upplifað svona tímabil og þá gert einhverjar ráðstafanir sem gengu upp? 

Með góðri kveðju,

Hrannar Baldursson, 20.2.2007 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband