Júróvisíonreynsla miðaldra karlmanns
6.5.2007 | 14:18
Ég hef verið hér í Helsinki frá áramótum. Ég vissi að Júróvisíon yrði hérna í maí og var nú ekkert sérstaklega spenntur. Gantaðist með það svona að ég yrði í salnum klæddur marimekkófötum og íslenski fáninn málaður framan í mig.
Svo þegar ég kom hérna þá áttaði ég mig fljótlega á að Finnar taka því mjög alvarlega að halda þessa keppni. Auk þess að vera með skemmtilega og vandaða forkeppni hafa verið margir þættir á nokkrum sjónvarpsstöðvum um Júróvísíon. Búið að margrifja upp lögin frá upphafi frá öllum sjónarhornum og hliðum.
Smátt og smátt hef ég orðið áhugasamari. Fylgdist reyndar spenntur með forkeppninni og var glaður þegar Hanna Pakkarinen vann. Hélt með henni. En svo fór ég að detta inn í alla hina þættina. Fyrst óvart en fylgdist svo vandlega með sjónvarpsdagskránni og hef passað að láta ekkert fram hjá mér fara.
Um páskana velti ég því fyrir mér hvort ég gæti ekki keypt miða á Júróvisíon. Fór í miðasöluna og þá var mögulegt að fá miða á þriðju síðustu æfingu fyrir keppni. Ég var að rífa upp veskið til að kaupa miða þegar ég áttaði mig. Þetta var náttúrulega algjörlega út í hött. Gekk út miðalaus. Skömmu síðar bauðst mér miði á 200 , en afþakkaði. Fannst það einfaldlega okur.
Svo dvínaði áhuginn og ég varð leiður á þessu Júróvísíon rugli. En þegar ég gekk fram hjá Júróvisíon þorpinu áðan þá vaknaði áhuginn aftur. Ég hlustaði þar á armenska fulltrúann syngja sitt lag og klappaði með og söng með í viðlaginu. Svo fór ég og keypti mér Júróvísion bol og hálsmen handa Ebbu. Tók svo mynd af okkur á símann minn og sendi á hitt bloggið - http://hafsteinn.hexia.net
Ég ætla bara að fylgjast með þessu og hrífast með. Fara á Júróvisíon karokí í vikunni og svona. Taka bara fullan þátt í þessu öllu. Af hverju ætti ég ekki að gera það?
Athugasemdir
Það myndi náttúrulega jaðra við glæp að vera staddur í Helsinki og vera EKKI með!!! Ég verð nú einfaldlega bara græn af öfund að lesa svona blogg! Hefði sjálf farið út úr miðasölunni einhverjum seðlum fátækari og miða á þriðju síðustu æfingu ríkari
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 11:26
Það væri ábyggilega frábært að sitja í sjónvarpssal og horfa á keppnina.
Ester Sveinbjarnardóttir, 8.5.2007 kl. 07:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.