Af hverju bera Finnar mikla virðingu fyrir kennarastarfinu?

Enn einu sinni lenda íslenskir kennarar í þrætum við samfélagið um starf sitt. Enn einu sinni koma fram ásakanir á hendur þeim um að þeir sinni ekki starfinu sínu. Enn einu sinni hljómar söngurinn um hið langa sumarfrí og fjölda frídaga um veturinn. Og enn einu sinni fullyrða menn að kennarar séu búnir í vinnunni upp úr hádegi.
Ekki veit ég frekar en nokkur annar hversu stór sá hópur er sem vegur að kennurum með þessum hætti. En hann er hávær og hefur mikil áhrif. Málflutningur hans sem er byggður á þekkingarleysi, fordómum og þeirri tilhneigingu að vita betur en aðrir (besserwisserar), jafnvel betur en kennarar um kennarastarfið. Málflutningur þessi skaðar ímynd kennarastarfsins og dregur úr þeirri virðingu sem það nýtur í samfélaginu.

Forystumenn kennara telja sig ævinlega knúna til að réttlæta vinnutíma sinn fyrir almenningi þegar þeir eiga í kjaraviðræðum eða kjaradeilum. Með þeim hætti er fókusnum snúið frá því sem máli skiptir, laununum, og yfir á vinnutímann. Þá koma ofnagreindir besserwisserar upp úr skotgröfunum og láta skotin dynja og kennarar fara í vörn. Aðalatriði verða aukaatriði og aukaatriði aðalatriði. Fólk skilur ekki almennilega þessa vinnutímaskilgreiningu og hendir jafnvel gaman að henni. Allt þetta hefur neikvæð áhrif á virðingu kennarastarfsins.

Finnar telja þá virðingu sem þeir bera fyrir kennarastarfinu eina aðalástæðuna fyrir velgengni finnskra skóla í alþjóðlegum könnunum. Þó eru finnskir kennarar á engan hátt frábrugðnir þeim íslensku og vinnutímaskilgreining þeirra er jafnvel enn skrýtnari. Þeir hafa sömu kennsluskyldu og íslenskir kennarar, sama tíma til undirbúnings, kenna sama dagafjölda á ári en geta gengið út úr skólunum um leið og þeir ljúka kennslu á daginn eða þegar skóla hefur verið slitið á sumrin. Þeir þurfa ekki frekar en þeir vilja að mæta fyrir skólasetningu í ágúst.

Af hverju njóta þeir þá meiri virðingar? E.t.v. vegna þess að litið er á menntun sem auðlind sem samfélagið byggir á. Hún sé nauðsynleg til þess að tryggja lífsgæði. Hátækni og nýsköpun er á háum stalli hér í daglegu tali. Virðingin er líka inngróin í menninguna. Finnar þurftu að berjast fyrir sjálfstæði sínu og þar skipti menntunin miklu máli. Góð finnsk menntun býr til sterka finnska þjóð. Þeir t.d. eru í forystu í heiminum hvað kennaramenntun varðar og ekki er þverfótað hér fyrir útlendingum (eins og mér) sem eru að kynna sér finnskt skólastarf.

Í sjálfu sér ætti þetta að vera svipað hjá okkur á Íslandi. Við háðum sjálfstæðisbaráttu á sama tíma og þeir. Virðing fyrir skólastarfi á að vera inngróin í menninguna. Ég veit ekki hvað veldur því að svo er ekki. Kannski þessi það reddast - hugsunarháttur. Álver í dag og möndl með peninga út um allar jarðir er málið. Nóg að hafa einhverja sem kunna sæmilega skil á debit og kredit.

Skólarnir á Íslandi eru með þeim bestu í heimi. Við eigum alla möguleika á að vera í fararbroddi í skólamálum og vera öðrum þjóðum fyrirmynd. Við eigum að leggja kapp okkar á að byggja upp skóla þar sem hvert einasta barn fær að njóta styrkleika sinna og útskrifast með sterka sjálfsmynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jú það er eflaust margt satt og rétt í þessu og þá sérstaklega hvað varðar sterka stöðu kennara í Finnlandi og afburðagott menntakerfi eins og við vitum.

En staða grunnskóla hér á landi er í heild þokkaleg en það er ekki nógu gott, við eigum að geta mun betur en til þess þarf skólinn að fara vera með.

Ótrúlega hægfara þróun, tilviljanakennd vinnubrögð og skortur á fagmannlegum vinnubrögðum er allt of algengt, því miður.

Nefni nokkur dæmi, fer ekki djúpt í þau en held að allir vita um hvað er verið að tala ef viðkomandi þekkir til vinnubragða grunnskóla. Þetta eru atriði sem skemma gríðarlega fyrir virðingu fyrir kennarastarfinu.

Hrikalega hægfara þróun.

Kennsluaðferðir oft í engum takti við nemendur og kröfur þeirra.

Tilviljanakennd vinnubrögð. Virðast lítið faglega ígrunduð a.m.k. þegar á reynir.

Dæmi um mjög slæleg vinnubrögð þegar málefni nemenda sem ekki finna sig í skólanum.

Drengir ekki að finna sig í skólanum , en tilviljanakennd vinnubrögð hjá einum og einum skólastjóra. Engin heildarstefan í gangi.

All of morg dæmi um herfilega stöðu nemanda í fjöldamörg ár en ekkert er gert fyrr en kannski í 9. eða 10. bekk

Leitarstarf að nemendum sem líður illa í skólanum er ekkert og mörg dæmi um að ef enmandi er ekki að rekast á reglur skólans þá getur hann silgt í gegnum skólann án þess að nokkuð sé gert.

Kennsluaðferðir á sumu námsefni virðast lítið sem ekkert ígrundaðar m.t.t. nemenda þ.e.a.s. mismunandi þarfir hvers og eins 

 Læt þetta nægja í bili nefndi bara stuttlega nokkur dæmi. En þetta eru m.a. þau atriði sem eru að grafa undan kennurum, það eru foreldrar sem horfa uppá þetta dag eftir dag. Sem betur fer þá er meirihlutinn nemenda að koma þokkalega út en hinn hópurinn er of stór og lítið virðist gert til að takast á við það.

Arnar Ævarsson (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband