Íslenski skólinn í klemmu

Athugasemd eða öllu heldur innlegg Arnars Ævarssonar við pistlinum hér á undan er gott og þarft og við ég þakka honum það. Hann beinir kastljósinu frá umbúðum skólastarfsins og að hinu innra starfi. Það er einmitt það sem við skólafólk og foreldrar þurfum að ræða saman um og komast að góðri niðurstöðu. Ég leyfi mér að birta hér nokkrar glefsur frá honum og viðbrögð mín við þeim.

Arnar segir að staða grunnskóla hér á landi sé í heild þokkaleg en það er ekki nógu gott, við eigum að geta mun betur en til þess þarf skólinn að fara vera með. Jafnframt segir hann að þróun sé ótrúlega hægfara, vinnubrögð tilviljanakennd og skortur á fagmannlegum vinnubrögðum séu allt of algeng.  Hann tekur nokkur dæmi máli sínu til stuðnings:

  • Kennsluaðferðir oft í engum takti við nemendur og kröfur þeirra.
  • Tilviljanakennd vinnubrögð. Virðast lítið faglega ígrunduð a.m.k. þegar á reynir.
  • Dæmi um mjög slæleg vinnubrögð þegar málefni nemenda sem ekki finna sig í skólanum.
  • Drengir ekki að finna sig í skólanum , en tilviljanakennd vinnubrögð hjá einum og einum skólastjóra. Engin heildarstefan í gangi.
  • All of morg dæmi um herfilega stöðu nemanda í fjöldamörg ár en ekkert er gert fyrr en kannski í 9. eða 10. bekk
  • Leitarstarf að nemendum sem líður illa í skólanum er ekkert og mörg dæmi um að ef enmandi er ekki að rekast á reglur skólans þá getur hann silgt í gegnum skólann án þess að nokkuð sé gert.
  • Kennsluaðferðir á sumu námsefni virðast lítið sem ekkert ígrundaðar m.t.t. nemenda þ.e.a.s. mismunandi þarfir hvers og eins 

Hann bendir í lokin á að meirihluti nemenda sé að koma þokkalega út en hinn hópurinn sé of stór og lítið virðist gert til að takast á við það.

Ég get verið sammála mörgu sem Arnar segir og hef reyndar bæði í ræðu og riti vakið athygli á stöðu drengja og stúlkna sem eiga undir högg að sækja í skólakerfinu.  Menntastefna á Íslandi setur þessi börn til hliðar. Strax 9 ára gömul eru þau látin þreyta samræmd próf, þar sem öll börn í árganginum eru mæld með sömu mælistiku bóknámsins. Aðrir styrkleikar nemenda skipta ekki máli. Ég hef sjálfur séð bæði stráka og stelpur brotna saman þegar niðurstöður samræmda prófins berast þeim. Það er dapurlegur dómur á fjórða ári af tíu í í skyldunámi og erfitt að standa undir honum. Staðreyndin er sú að þessi börn eiga erfitt í náminu alla skólagönguna og þau eru minnt með reglulegum hætti af stjórnvöldum á vangetu sína í bóknáminu. Menntayfirvöld, bæði ríkið og sum sveitarfélög allavega, gera mikið með samræmdu prófin og líta á skólastarfið sem keppni milli skóla og sá skóli vinnur sem best kemur út úr prófunu. Áherslan þar á meðaltalstölur en ekki einstaklingana á bak við tölurnar. Yfirvöld eru þannig að þrýsta skólum til að vinna að því að koma vel út úr samræmdum prófum, en eins og kunnugt er þá  eru þau bara í bóknámsgreinum. Samræmdu prófin eru óþörf í grunnskólanum og gera að mínu viti meira ógagn en gagn. Finnar eru t.d. ekki með samræmd próf af þessu tagi.

Arnar nefnir einnig réttilega þörfina á að skólar komi til móts við mismunandi þarfir einstaklinganna bæði með fjölbreyttum kennsluaðferðum og námsframboði. Þessu er ég hjartanlega sammála og tel þetta brýnasta verkefnið í skólamálum í dag. Þetta er sú leið sem við getum farið til að útskrifa alla nemendur með bros á vör og trú á sjálfa sig að eftir tíu ár í grunnskóla.

Á Íslandi hefur verið stigið stórt skref í þessa átt og Reykjavíkurborg setti t.d. í menntastefnu sína árið 2000 eða 2001 að stefnt skyldi markvisst að einstaklingsmiðuðu námi í skólum borgarinnar. Síðan hafa önnur sveitarfélög fylgt í kjölfarið þannig að ekki vantar stefnuna. Sum sveitarfélög og skólar hafa fylgt þessu eftir með markvissu námskeiðahaldi fyrir kennara og skólastjórnendur og vissulega má nú finna skóla á Íslandi sem eru komnir langt í þessu. En breytingar af þessu tagi taka tíma, því ekki þurfa kennarar aðeins að breyta vinnubrögðum sínum, foreldrar verða einnig að vera sáttir við hina breyttu kennsluhætti sem og nemendur. Námsefnisgerð þarf einnig að taka mið af þessu. Þá ekki síður menntayfirvöld, en samræmdu prófin eru t.d. algjörlega á skjön við hugmyndir um einstaklingsmiðað nám.Börnin í skólanum eru ekki samræmd frekar en við fullorðna fólkið. 

Af þessu má sjá að skólinn íslenski er í ákveðinni klemmu. Annars vegar er krafan um samræminguna og bóknámsáherslurnar og hins vegar krafan um að koma til móts við þarfir hvers og eins. Þetta fer ekki í öllu saman og hefur gert kennurum og skólastjórnendum erfitt fyrir. Í hvora áttina á að fara? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband