Kennarar berjast fyrir betri menntun barna

Páli Vilhjálmssyni, blaðamanni, hefur verið tíðrætt um ýmis mál er varða skóla á bloggsíðu sinni að undanförnu. Af sérviskulegum ástæðum legg ég út frá skrifum hans hér á þessari síðu, fremur en að gera það í athugasemdum hjá honum, enda hættir mér til að hafa athugasemdir mínar langar og oft ekki nema að hluta til tengt efninu.

Í nýjasta pistli sínum segir hann eftirfarandi: 

„Leiðin fyrir kennara til að endurreisa virðingu kennarastarfsins er að gera menntun barna að baráttumáli sínu. Með menntun í forgrunni er hægt að endurskoða ýmsa skýrsluvinnu sem núna er á herðum kennara. Það ber að aðskilja félagslega þjónustu sem hæfilegt þykir að veitt sé innan skóla frá reglulegri kennslu. Alþjóðlegur samanburður á stöðu barna í einstökum námsgreinum gefur færi á að setja sér tiltekin markmið. Kröfur um að kennarar taki meistarapróf eru tilefni til að stokka upp endurmenntunarþáttinn. Fleira þarf að koma til og ættu kennarar manna best að vita hvar skórinn kreppir að.“

Nú er það svo að kennarar starfa við menntun barna. Alla tíð hafa þeir unnið hávaðalaust og af dugnaði að þróun skólastarfs með það fyrir augum að bæta skólastarf börnunum til hagsbóta. Það eru þeir sem hafa barist fyrir því bekkir yrðu fámennari svo að börnin fengju betri menntun. Og þetta hefur verið partur af kjarabaráttu þeirra. Þeir hafa líka barist fyrir einsetningu skólanna sem fyrst og fremst kemur börnunum vel og þau geta fengið lengri skóladag og nýtt besta tíma dagsins til námsins. Þróun skólastarf hefur í sumum tilfellum á undanförnum áratugum verið reiknuð sem kjarabætur til kennara. Það er alveg fráleitt og það er mjög mikilvægt að aðskilja kjarabaráttu og skólaþróun. Bætt aðstaða nemenda til náms eru ekki kjarabætur fyrir kennara. Né heldur eru samninganefndir sveitarfélaga og kennarafélaga    heppilegustu aðilarnir til að möndla um skólaþróun. 

Ég vil líka minna á samtök sem kennarar hafa stofnað til að stuðla að auknu þróunarstarfi og betri skóla. Í fyrra komu um 400 kennarar saman á Selfossi og stofnuðu Samtök áhugafólk um skólaþróun. Miðað við höfðatölu er þar líklega um heimsmet að ræða. Sýnir bullandi áhuga íslenskra kennara og baráttu fyrir betri menntun barnanna. 

Stóra þróunarverkefnið sem kennarar eru að vinna núna til að bæta skólastarfið er að koma á einstaklingsmiðuðu námi. Það er tröllaukið verkefni og flókið og tekur til margra þátta. Það er í raun verkefni sem allt þjóðfélagið verður að koma að og þá ekki síst foreldrar. Þetta er líklega einhver stærsta breyting á skólastarfi sem gerð hefur verið á skólastarfi. Þetta verkefni krefst mikils samstarf og samvinnu innan skólasamfélagsins.  Íslenskir kennarar hafa á undanförnum árum gjörbreytt vinnulagi sínu og samvinna meðal þeirra við undirbúning og skipulag kennslu er nú miklu meira en áður var. Hér í Finnlandi hef ég hitt skólamenn sem telja vinnulag kennara á Íslandi til mikillar fyrirmyndar og dæmi eru um að skólar hér séu að reyna að taka það upp. 

Ég vil líka vara við að menn einblíni um of á alþjóðlegar samanburðarkannanir. Ísland hefur reyndar komið vel út úr þeim. Rétt er að vekja athygli á því að í þeim eru að jafnaði tekin meðaltöl og þau borin saman. Einstaklingarnir á bak við meðaltölin skipta máli, ekki bara meðaltal þeirra, heldur hver og einn. Við eigum að byggja okkar skólakerfi upp þannig að hvert einasta barn fái að njóta sín. Ekki bara þau sem eiga auðvelt með hefðbundið bóknám.

Eins og annað er kennaramenntun í þróun og þess má vænta að innan skamms verði kennaranámið lengt á Íslandi. Ég held meira að segja að undirbúningur að því sé hafinn. En ég vil líka vekja athygli á því að kennarar eru að ég hygg flestum stéttum duglegri við að bæta við menntun sína. Fjöldi kennara er í fjarnámi jafnframt sinni vinnu, auk þess að sækja reglulega námskeið til að efla sig í starfi. Allt til að bæta menntun barnanna.  Þeir eru nefnilega hörðustu baráttumenn fyrir betri menntun á Íslandi. Í þá sveit er rúm fyrir fleiri vaska liðsmenn úr röðum foreldra og annarra. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Hafsteinn og ég þakka þér fyrir skelegga umræðu hér á þinni síðu og fleirum.

Ég vil aðeins bæta við þá umræðu sem fram kemur hjá þér um alþjóðlegan samanburð, svokallaða Pisa könnun. Hún fer fram með reglulegu millibili í þátttökulöndunum og svo eru reiknuð út meðaltöl og fleiri meðaltöl til að fá niðurstöðu sem síðan er notuð til samanburðar.

Það sem ég er skeptískastur yfir varðandi þessa Pisa könnun og þar með niðurstöðurnar úr henni er tvennt:

Í fyrsta lagi þá er hún ekki lögð fyrir á nákvæmlega sama hátt í öllum löndunum og þar sker Ísland sig úr. Á Íslandi er könnunin lögð fyrir allan árganginn, þ.e. allt þýðið. Sem sagt að könnunin er lögð fyrir alla nemendurna sem hlut eiga að máli. Í hinum löndunum er tekið úrtak úr þýðinu, þ.e. að aðeins hluti af öllum nemendunum sem hlut eiga að máli taka þátt. Niðurstaðan úr úrtakinu er síðan heimfærð á allt þýðið í viðkomandi landi. Nokkrir aðilar sem vit hafa á slíkum könnunum draga í efa nákvæman samanburð á milli landa þegar niðurstöður þessara kannanna eru bornar saman.

Á það skal bent að Ísland hefur komið vel út úr þessum samanburði og eðli málsins samkvæmt eru skekkjumörkin í niðurstöðunum hér á landi engin. Þá spyr maður sig, er Ísland þarna ofmetið?

Í öðru lagi er það sem ég kalla 'Pisavæðing' skólastarfs á Íslandi. Íslenskir pólitíkusar sem stjórna menntamálum eru sífellt að vitna í niðurstöður þessarar könnunar á tyllidögum. Það hafa þeir gert í nokkurn tíma og nú er svo komið að undir niðri eru þeir að pressa á það að skólastarfið miði í æ ríkara mæli að þeim þáttum sem mældir eru í Pisa könnuninni. Þarna er allt í einu búið að finna einhvern mælikvarða sem er 'in' en í minna mæli er einblínt á samræmd próf eða einhvern annan mælikvarða sem skal taka við af þeim. Þetta finnst mér afar varhugaverð þróun.

Með bestu kveðjum til Finnanna frá kollegum á Skólavörðuholtinu.

Jóhannes

jbi (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 19:58

2 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Vel mælt Hafsteinn, því miður náði ég ekki alveg að telja upp í tíu áður en ég tjáði mig á síðu Páls.  Komst að henni í gegnum starfsfólkið mitt hér á Snæfellsnesi, sem var afar misboðið en lagði af einhverjum ástæðum ekki í að svara.

Finnst líka kominn tími á að skólastjórnendur reyni að stýra umræðunni inn á réttari brautir, líkt og þú gerir hér í þínum pistli.  Það ætti að vera okkar hlutverk, því engir sjá betur þá samviskusemi, þann metnað og vinnugleði sem ríkir í skólum.  Við þurfum líka að bregðast við ef uppá vantar.  Sjaldnar finnst mér það vera sem það þarf!

En vel mælt og vandlega, eins og við var af þér að búast! 

Með kveðjum af Snæfellsnesinu, Magnús Þór.

Magnús Þór Jónsson, 23.2.2007 kl. 20:21

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Hafsteinn og þakka þér umræðuna.

Ég vildi bera undir þig atriði sem varðar kjarna skólastarfs.

Mér hefur sýnst tvö meginsjónarmið vera höfð í frammi um hlutverk grunnskólastarfs. Með fyrirvara um alhæfingar líta þau einhvern veginn svona út.

Í einn stað eru það skólamenn sem leggja áherslu á breiddina í skólastarfinu og að skólinn sinni ólíkum þörfum nemenda, ekki síst þeim sem þurfa á sérstuðningi að halda og félagslegum úrræðum. Uppeldi er ekki síður mikilvægt en menntun samkvæmt þessu sjónarmiði.

Í annan stað eru það sjónarmið sem segja menntun mikilvægasta þáttinn í skólastarfinu. Hlutverk skóla sé að bjóða nemendum haldgóða menntun og undirbúa þá undir frekara nám. Uppeldinu sé best komið á heimilum og skólar eigi helst ekki að vera vettvangur félagslegra úrræða.

Tilfinning mín er að hluta af vanda skólastarfsins megi rekja til þess að fyrrnefnda sjónarmiðið hafi orðið um of ríkjandi.

Áhugavert væri að heyra álit þitt.

bestu kveðjur

páll

Páll Vilhjálmsson, 24.2.2007 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband