Á skólinn að sinna uppeldi eða menntun?

Í athugasemd við pistil minn hér að neðan veltir Páll Vilhjálmsson eftirfarandi fyrir sér: 

„Mér hefur sýnst tvö meginsjónarmið vera höfð í frammi um hlutverk grunnskólastarfs. Með fyrirvara um alhæfingar líta þau einhvern veginn svona út.

Í einn stað eru það skólamenn sem leggja áherslu á breiddina í skólastarfinu og að skólinn sinni ólíkum þörfum nemenda, ekki síst þeim sem þurfa á sérstuðningi að halda og félagslegum úrræðum. Uppeldi er ekki síður mikilvægt en menntun samkvæmt þessu sjónarmiði.

Í annan stað eru það sjónarmið sem segja menntun mikilvægasta þáttinn í skólastarfinu. Hlutverk skóla sé að bjóða nemendum haldgóða menntun og undirbúa þá undir frekara nám. Uppeldinu sé best komið á heimilum og skólar eigi helst ekki að vera vettvangur félagslegra úrræða.

Tilfinning mín er að hluta af vanda skólastarfsins megi rekja til þess að fyrrnefnda sjónarmiðið hafi orðið um of ríkjandi.“

Það er alveg hárrétt hjá Páli að tvö sjónarmið í þessa veru hafa verið á lofti í umræðu skólamanna.  Í mínu huga verður menntun ekki aðskilin frá uppeldi og við skólamenn getum ekki ýtt uppeldishlutverkinu frá okkur. Það breytir ekkert ábyrgð og hlutverki foreldra bæði hvað varðar uppeldi og menntun en á þeim hvílir hún fyrst og fremst. Stundum hefur heyrst að skólinn sé að taka uppeldishlutverkið frá foreldrum eða foreldrarnir að varpa því yfir á skólann. Slíkt er alveg út í hött og má auðvitað ekkert gerast. 

Ég held að í þessum sjónarmiðum kristallist hugmyndafræði hins hefðbundna skóla annars vegar og hugmyndafræði um nútímaskóla. Áður snérist skólastarf um að koma vitneskju sem kennarinn bjó yfir til barnanna. Hann kenndi þeim ákveðnar staðreyndir og gerði þau tilbúin fyrir næsta skólatig. Nú er enginn þörf fyrir þetta. Það er hægt að verða sér út um þessa þekkingu allsstaðar og heimili geta alveg eins sinnt þessu með því að stilla barninu upp fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna. Starf kennarans snýst ekki lengur um að fylla upp í sérstök staðreyndahólf í heilum barna. Nú er þörf fyrir skóla sem "menntar" börn í að vera heilsteyptir og góðir einstaklingar með sterka sjálfsmynd og trú á sjálfa sig. Í þeim skóla er  námið í öndvegi og á námsskránni eru vissulega þær námsgreinar sem við þekkjum. En leiðirnar í náminu eiga að mínu mati að vera margar og fjölbreyttar og það eiga ekki allir að þurfa að gera það sama og jafnvel geta markmiðin verið ólík.

Skólinn á ekki að miða nemendur sína við einhvern normal-nemanda og flokka svo hópinn í góða nemendur og lélega. Það er ekki til neitt sem heitir gott barn eða lélegt. Öll börn eru góð og flínk í einhverju og á því á skólavera þeirra að byggja. Við fullorðna fólkið gerum okkur grein fyrir veikleikum okkar og styrkleikum og veljum okkur starf sem við teljum okkur ráða við og höfum jafnvel gaman að. Við yrðum fljótt pirruð ef við mættum í vinnuna og á hverjum degi væru okkur fengin verkefni sem við réðum ekki við. 

Ég er þeirrar skoðunar að það að stuðla að góðum þroska barnanna taki bæði til menntunar og uppeldis og það verði ekki aðskilið. 

Hvernig er skóli sem hugsar aðeins um að kenna? Ég sé fyrir mér að börnin mæti inn í kennslustofu og þar standi kennarinn við töfluna og miðli af visku sinni. Hann tekur nemendur upp og hlýðir þeim yfir og flokkar þá svo í góða og lélega nemendur. Og honum er nokkuð sama um hvernig þeim líður eða hvernig þau hafa það yfirleitt. Ég held að þetta sé sem betur fer ekki til í dag. 

En svo má auðvitað spyrja hvaða merkingu leggja menn í hugtökin - menntun, kennsla, uppeldi? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Vel mælt Hafsteinn.

Að sjálfsögðu er skólinn spegill samfélags, og þarf að bregðast við breytingum í því.  Engin ástæða fyrir allan páfagaukinn á tímum internets og sífellt meiri hraði í samfélaginu kallar á meira uppeldi.

Í svo litlu landi er mikilvægt að allir einstaklingar þess fái haldgóða menntun sem nýtist þeim.  Þess vegna þarf að skoða hluti eins og námskrár og próf í því ljósi.

Ég hef lengi talið að íslenskir skólar þurfi að finna sér fleiri mælikvarða en þann eina sem þjóðfélagið dæmir okkur útfrá, samræmd próf.  Kannski ættum við að taka upp slík próf sem kanna líðan barna í skólanum, sjálfstæð vinnubrögð, hjálpsemi og kunnáttu í að leita sér þekkingar í nútímanum?

Góður þroski tekur til menntunar og uppeldis.  Verður ekki aðskilið.  Hjartanlega sammála.

Magnús Þór Jónsson, 24.2.2007 kl. 10:27

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæll Hafsteinn. Þessi grein kveikti svolítið skemmtilega í mér. Ég ætlaði að skrifa þér stutt svar sem varð allt í einu að grein. Hér er hún: Uppeldi, fræðsla og menntun

Hrannar Baldursson, 24.2.2007 kl. 16:23

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Hafsteinn

Ég þakka svörin, þau voru greinargóð. Samt sem áður ætla ég að leyfa mér að vera ósammála.

Kjarnastarf skóla í almennum sögulegum skilningi er að bjóða menntun. Kennsluhættir geta verið með ýmsu móti en þegar til stykkisins kemur stendur það eftir að kennari veitir leiðsögn og hvatningu til að nemendur tileinki sér námsefnið. Fyrir kennslu þarf kennari að undirbúa sig, þar með talið að yfirfara verkefni nemenda.

Nemendur eiga kröfu á að kennari búi yfir þekkingu á námsefninu og kunni að miðla þeirri þekkingu. Kennari á kröfu á að nemendur kunni mannasiði og virði almennar umgengisreglur og er það sameiginleg ábyrgð nemandans sjálfs og foreldra eða forráðamanna. Skólastjórnendur eiga að hafa yfirstjórn á skólahaldi og grípa í taumana rísi kennarar eða nemendur ekki undir sinni ábyrgð.

Í skólahaldi samtímans er búið að hlaða ofaná kennsluna ýmsum verkefnum sem sum virðast nærtæk, s.s. foreldraviðtöl, en önnur langsóttari, t.d. ýmsir fagfundir fyrir utan reglulega kennarafundi. Þá finnst sumum kennurum skýrsluvinna vera orðin meira en góðu hófi gegnir.

Alvarlegra er þó að inn í skólahald hefur læðst hugsunarháttur um skólinn eigi að sinna margþættu uppeldishlutverki sem eðlilegra er að heimilin sinni, og ef þau bregðast, þá aðrir fagaðilar en skólinn. Ég segi læðst því ég hef hugboð um að ekki hafi verið tekin meðvituð ákvörðun um þessa breytingu heldur hafi þetta verið meira þegjandi og hljóðlaus þróun. Þú leiðréttir mig, Hafsteinn, ef ég fer rangt með.

Til að útskýra hvað ég á við skal ég taka dæmi. Þann stutta tíma sem ég var í kennslu, örstutta myndi Magnús Þór hér að ofan segja, komst ég í kynni við strák í tíunda bekk sem var ekki húsum hæfur. Drengurinn var bráðgreindur og ljómandi skemmtilegur en ólgaði svo af lífi og fjöri að hann gat ekki setið kyrr mínútunni lengur. Hann hoppaði eins og apaköttur upp á borðum og kjánaðist við aðra nemendur þannig að ekki var starfsfriður í kennslustofunni. Þótt sérstakur aðstoðarkennari hafi verið ráðinn drengnum til höfuðs stoðaði það lítt. Það þarf ekki að taka fram að foreldrarnir höfðu komið í ótal viðtöl.

Í stuttu máli þá hentaði hefðbundið skólastarf ekki þessum dreng. Hann þurfti sérstök úrræði sem leyfðu honum að njóta sín og þroskast á öðrum forsendum en hentar venjulegum nemendum. Ég er ekki að ræða um króa drenginn og aðra hans líka af og setja þá í afmarkaða kima þar sem þeir éta vitleysuna upp hver eftir öðrum. Heldur hitt að sumir, oftar drengir en stúlkur, gera sig ekki í hefðbundnu skólastarfi. Úrræðin fyrir þennan hóp gætu verið af ýmsum toga en sísta leiðin hefur verið farin, sem er að halda þeim í skólanum sem rekinn er á þeim forsendum að nemendur virði almennar umgengisreglur. Frávikin draga að sér athygli og starfsþrek kennara sem ætti fyrst og fremst að beinast að hinum stóra fjölda nemenda sem haga sér eins og fólk flest.

Dæmið sem ég tek er öfgakennt, ég veit það. Grunnskólanemendur, rétt eins og fullorðnir, eiga sína slæmu daga og gætu tímabundið þurft á öðru að halda en kennslu og sjálfsagt að skólinn geti mætt slíkum atvikum.

Áhersluatriðið sem ég vil vekja athygli á er að ef skólinn fjarlægist grunnhlutverk sitt þá þynnist út kjarnastarf skólans sem er kennsla. Afleiðingin af því er að með tímanum verða kennarar fremur almennir uppalendur en fagmenn á sviði kennslu.

Páll Vilhjálmsson, 24.2.2007 kl. 16:44

4 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Sæll Páll

Ég held að skoðanir okkar fari alveg saman. Ég er sammála þér um grunnhlutverk skólans, hlutverk kennara, uppeldishlutverk heimilanna og ekki síst hlutverk skólastjórnenda.

Ég þekki marga nemendur, bæði drengi og stúlkur - þó drengirnir séu fleiri, sem eiga erfitt með að aðlagast hinu hefðbundna kerfi og lýsing þín er mér ekki ókunnugleg.  Ég held einmitt að þú hittir naglann á höfuðið þegar þú nefnir hið hefðbundna kerfi. Og ég hef stundum spurt - hvort er bilað - kerfið eða þessir nemendur?  

Oftast er svarið kerfið þegar maður sér svo þessi börn haga sér á allt annan hátt við svolítið aðrar aðstæður eða að fást við önnur viðfangsefni. Og þess vegna eigum við að hætta að hugsa um einhverja nemendur sem normal og hina sem frávik. Við þurfum bara að gefa krökkunum færi á að fara svolítið mismunandi leiðir í skólastarfi, opna fyrir meira val og slaka á kröfunni um að allir séu alltaf að gera það sama á sama tíma. Það er ekki hægt að tala um heilbrigða krakka sem frávik.

Ég veit að ýmsir af þeim sem eru stilltir og prúðir í tímum og gengur vel í námi líður illa og þjást af leiða. Þekki það bara af eigin skinni auk þess sem nemendur mínir hafa tjáð sig um það við mig. Þessi normal nemandi sem við erum að miða allt við, hann er einstaklega sérstakur og mér liggur við að kalla hann frávik.

Ég held að meiri fjölbreytni í námsframboði og viðfangsefnum komi öllum nemendum til góða. Markmiðin geta verið að mestu þau sömu, þó að mér sé til efs að allir nemendur þurfi endilega að læra alla algebruna sem kveðið er á um í námskrá, svo dæmi sé tekið. 

Kennarinn verður áfram í sínu hlutverki og nemendur þurfa að standa skil. 

Þannig að ég er ekki að tala um að skólastarfið verði allt eitt allsherjar gleðihappening. Ég er að tala um að vinna krakkanna verði fjölbreyttari og viðfangsefni geti verið mismunandi. Það er auðveldara að læra ef maður er glaður í sinni. Hins vegar er fjandi stutt í að maður finni sér leikföng í leiðanum og þá er ekki von á góðu.

Hafsteinn Karlsson, 24.2.2007 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband