Getur skólinn flokkað börn í góða og lélega nemendur?

Í skólakerfinu hefur lengi viðgengist að flokka börn eftir ákveðnu mælikerfi. Þetta var kannski skiljanlegt hér áður fyrr en ég get alls ekki skilið hvers vegna þessu er haldið áfram og nú inn í 21. öldina.

Ég var að glugga í nýja Aðalnámskrá grunnskóla, dagsettri 20. desember 2006 og undirrituð af menntamálarráðherra. Þar segir á einum stað: 

„Eitt mikilvægasta úrlausnarefni skóla og skólayfirvalda í þessu sambandi er að finna leiðir til að koma til móts við ólíka getu og ólík áhugamál nemenda, þ.e. að veita nemendum menntun við hæfi hvers og eins.“

Þessu er ég sammála og tel þetta einmitt stóra verkefni grunnskólans í dag. En við lestur Aðalnámskrárinnar get ég ekki séð annað en að áfram skuli haldið á sömu braut og við höfum verið, þ.e. að flokka nemendur í góða og lélega. Sbr.:

„Grunnskólar eiga að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli, börn úr afskekktum byggðarlögum, börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu."

Í þessari litlu klausu koma fram ýmsir flokkar barna og sum raðast jafnvel í fleiri en einn flokk. Vissulega getur verið gagnlegt í kerfinu að nota flokkun til einhvers er þetta er dálítið mikið. Hefði ekki nægt að segja þarna: „Þetta á við um öll börn“? Reyndar tala menn stundum um ásigkomulag bíla og þá oft þeirra sem eru hálfgerðar druslur, en mér finnst það ekki passa þegar talað eru um börn. Að það sé eitthvað ásigkomulag á þeim þegar þau mæta í skólann og þar eigi svo að koma þeim í betra ásigkomulag. 

Annað sem ég hnýt um þarna er þegar talað er um „afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli“. Þarna er mælistikan í allri sinni dýrð. Á öðrum endanum eru „afburðagreind“ börn en hinum „greindarskert“ og svo raðast hinir á milli. Normal nemandinn er líklega einhversstaðar í miðjunni, eða hvað, skyldi hann kannski vera nær hinum afburðagreindu? Er mælikvarðinn þá ekki eitthvað vitlaus?

Á þessari mælistiku skólakerfisins rekumst við á ýmis orð sem notuð hafa verið yfir börn sem ekki hafa fallið að kerfinu. „Seinfærir“ nemendur, nemendur með „sérþarfir“ (hver er annars ekki með einhverjar sérþarfir?), nemendur með „hegðunarfrávik“, nemendur með „sértæka námsörðugleika“ o.s.frv. 

Á síðustu áratugum hafa komið fram kenningar um að greindirnar séu nú fleiri en þær sem skólakerfið leggur áherslu á. Gardner talar um 8 greindir en skólinn er aðallega að vinna í tveimur. Og ekki er að sjá að neinar sérstakar breytingar verði þar á. Meginþunginn í skólakerfinu liggur í hefðbundnu bóknámi sem allir verða að dröslast í gegnum. Og þeir sem ekki eru með styrkleika sína á því sviði, fara í flokkana sem nefndir eru hér að ofan.

Öll íslensk grunnskólabörn eru svo mæld þrisvar á skólagöngunni og borin saman við jafnaldra sína á landinu. Samræmd próf í 9 ára, 12 ára og lokabekk grunnskóla sem að sjálfsögðu reyna bara á tvo flokka greinda. Og flokkuð eftir því og með þeim hætti að það fari nú hvorki fram hjá þeim en öðrum. Nemendur fá meira að segja greinargóðar upplýsingar um hvort þeir eru í hópi þeirra lélegustu á landinu eða hvar þeir eru á kvarðanum.

Af hverju finnst okkur þetta í lagi? Þetta kerfi er skapað af fólki sem hefur staðið sig vel í skóla. Á góðar minningar úr skóla, fékk góðar einkunnir og gekk menntaveginn. Var jafnvel „afburðagreint“. Þurfti allavega ekki að bera stimpil um „sér - eitthvað“ sem lítið barn eða unglingur. Hafði gaman af bóknámi og gekk vel. Og finnst bara að kerfið eigi að vera svona. Ég hef oft hitt fullorðið fólk sem á vondar minningar í skóla. Gekk þaðan út með brostna sjálfsmynd og litla trú á sjálft sig. Nýlega hitti ég t.d skemmtilegan mann um fertugt sem ég spjallaði svolítið við. Þegar talið barst að skóla þyngdist svipur hans og hann sagði: „Mér gekk aldrei vel í skóla, ég er svo vitlaus.“

Er ekki tímabært að breyta þessu? Búa til kerfi fyrir börnin en ekki reyna að laga börnin að kerfinu. 

Ég spyr bara eru til léleg börn? Eru ekki bara til góð börn? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Áhugaverð grein, það hefur orðið mikil framför í skólamálum en það er alltaf hægt að gera betur.  Mig langar að benda þér á grein sem Sigurður Ásbjörnsson skrifaði varðandi breytingar á Iðnskólanum í Reykjavík, þar víkur hann að því að nauðsynlegt er að auka aðgengi að menntun. 

Ester Sveinbjarnardóttir, 25.2.2007 kl. 15:40

2 Smámynd: Dagbjört Ásgeirsdóttir

Sæll Hafsteinn.

Það er virkilega gaman og fróðlegt að hafa 'dottið' inn á síðuna þína. Áhugaverð og innihaldsrík skrif um skólamál.

Ég er á því að skólinn þurfi að finna leiðir til að mæta þessum góðu börnum, finna þær leiðir sem virka fyrir hvern og einn. Ég geri mér grein fyrir því að í því felst mikil vinna, en vinna sem ber árangur. Það eru allt of margir nemendur (oft eru það drengir) sem eru á beinu brautinni til að upplifa sig eins og þessi fertugi maður sem þú talar um hér að ofan. Nemendur sem passa ekki inn í nálarauga samræmdu prófanna.  

Dagbjört Ásgeirsdóttir, 25.2.2007 kl. 16:10

3 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Kvitta fyrir mig, þakka góða grein og sérstaklega síðustu spurninguna.

Kv. SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 5.3.2007 kl. 04:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband